Landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, Arnar Þór Viðarsson, kallar eftir skýrum ramma þegar kemur að því hvað þarf að gerast til að þjálfarar mega ekki velja einstaka leikmenn í landsliðið í kjölfar þess að stjórn KSÍ tók ákvörðun um að víkja Kolbeini Sigþórssyni úr hópnum.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari og varnarmaðurinn Kári Árnason sátu fyrir svörum á blaðamannafundi íslenska landsliðsins fyrir leik liðsins gegn N-Makedóníu sem fer fram á morgun.
Á fundinum var Arnar Þór spurður út í fjarveru Kolbeins Sigþórssonar og hvort eðlilegt gæti talist að fundargestir stjórnar KSÍ fái að renna yfir landsliðshópinn og velja þá leikmenn sem ekki mættu spila og hvort það hefði áhrif á störf hans sem landsliðsþjálfara. Arnar Þór sagðist ekki geta tjáð sig um þennan meinta fund stjórnar KSÍ þar sem hann sat ekki fundinn. Hann kallaði þó eftir skýrum ramma um hvað þarf að gerast til að þjálfarar geta ekki valið ákveðna leikmenn. „Við verðum, ekki bara fyrir fótboltann heldur fyrir íþróttir í heild á Íslandi, þá verður að vera til einhver rammi um það hvað þarf að gerast áður en það er ekki í boði fyrir þjálfara að velja ákveðna leikmenn. Sá rammi þarf að vera alveg skýr,” segir Arnar Þór.
Arnar segir ekki vera boðlegt fyrir þjálfara að þurfa að hringja í stjórnarmeðlimi til að fá leyfi fyrir hverjum einasta leikmanni. „Við sem þjálfarar, það er ómögulegt fyrir okkur að vinna okkar starf ef við þurfum að hringja inn nöfn til stjórnar eða hvern sem er og fá leyfi til að velja fólk. Þá get ég ekki unnið starfið mitt. Ef ég get ekki unnið starfið mitt eins og ég vil vinna það þá þarf að finna einhvern annan þjálfara. Það þarf að gera þetta mjög fljótt. Þessi rammi þarf að vera klár eins fljótt og hægt er,” segir Arnar Þór.
Að lokum benti Arnar Þór á að umræðan síðustu viku hafi verið skaðleg fyrir íþróttirnar, fótboltann og samfélagið í heild sinni.
Bjartsýnn fyrir leikinn
Á fundinum kom fram að engin meiðsli komu upp í leiknum gegn Rúmeníu en einhverjir leikmenn eru þó þreyttir eftir þann leik. Arnar Þór er bjartsýnn fyrir leikinn á morgun og segir að lið N-Makedóníu sé í svipaðri stöðu og það íslenska. Nýr þjálfari sé tekinn við liðinu og vinnur nú að því að þróa sitt leikkerfi og smíða sitt lið. Hann býst við svipuðum leik og gegn Rúmeníu á fimmtudag.
Athygli vakti að Viðar Örn Kjartansson var í byrjunarliði íslenska liðsins gegn Rúmeníu en hann var kallaður inn í hópinn eftir að stjórn KSÍ tilkynnti að Kolbeinn Sigþórsson hefði verið tekinn úr hópnum eftir stjórnarfund KSÍ. Arnar Þór sagði á fundinum í dag að Kolbeinn væri hans fyrsta val sem framherji í þessum leikjum og þegar ljóst var að Kolbeinn fengi ekki að taka þátt var ákveðið að kalla Viðar Örn inn og láta hann byrja.
Þrátt fyrir tap gegn Rúmeníu segist Arnar Þór vera nokkuð ánægður með leik íslenska liðsins. Hann segir margt hafa verið mjög gott en þó ekki frábært. Liðið skapaði sér færi og gerði góða hluti með boltann. Það sem varð liðinu að falli voru einstaklingsmistök sem gáfu Rúmenum tækifæri á að skora.