Arna Sigríður Albersdóttir braut blað í íslenskri íþróttasögu þegar hún varð fyrst Íslendinga til að keppa í handahjólreiðum á Ólympíumóti fatlaðra. Arna Sigríður segir að það sé magnað að hafa komist á Ólympíumót, sérstaklega í ljósi þess að læknar sögðu að hún hefði ekki átt að lifa af skíðaslysið í Noregi fyrir 15 árum.

Arna Sigríður keppti í tímatöku og í götuhjólreiðum í gær og í dag. Hún kom fimmtánda í mark í götuhjólreiðunum, síðust þeirra sem tókst að klára keppnina, en Arna hjólaði brautina, sem var 26,4 kílómetra löng, á 1:25,49 klukkustund.

„Smá blendnar tilfinningar. Það var auðvitað geggjað að klára, þetta var rosalega erfitt. Ég er samt smá fúl að hafa misst af hópnum svona snemma. Það var frekar erfitt andlega í brautinni að sjá þær fara frá sér og klára þetta ein. Það hjálpar manni svolítið mikið að hafa aðra til að taka vindinn fyrir sig en ég er bara fáránlega ánægð með að hafa klárað,“ sagði Arna beint eftir keppni.

Fuji-kappakstursbrautin er afar krefjandi, beygjurnar eru krappar og brekkurnar brattar, og það fór því eðlilega að draga af mörgum þegar líða fór á keppnina. „Þetta er erfiðasta keppnisbrautin, og ég held ég sé ekkert ein að segja það, það eru allir að tala um það, meira að segja þessar bestu stelpur. Á síðustu Ólympíuleikum sögðu þær að brautin hefði verið alveg flöt og að það hefði ekki verið gott, en ég held að þetta sé einum of mikið í öfuga átt,“ sagði Arna og hló.

Hin hollenska Jennette Jansen tryggði sér sigurinn í greininni. Jansen er 53 ára og þrautreynd og margverðlaunuð íþróttakona. Hún keppti fyrst á Ólympíumótinu í Seúl árið 1988, þá í hjólastólaspretti, og vann þrenn gullverðlaun í Seúl. Í Barcelona árið 1992 vann hún tvenn silfurverðlaun og eitt brons og í Atlanta árið 1996 vann hún brons í liðakeppni í hjólastólakörfubolta fyrir Holland. Jansen fékk brons í götuhjólreiðunum í Ríó 2016, brons í tímatökunni á leikunum í ár og gull í götuhjólreiðunum. Og margar af þeim sem Arna keppti við í dag og í gær eru afar reyndar í handahjólreiðum.

„Þetta er auðvitað fáránlega mikil reynsla og þetta er rosalega stórt mót. Umgjörðin er rosa stór og alls konar hlutir sem við vissum ekki og vorum að læra. Fjórum mínútum fyrir ræsingu kom í ljós að hjólið mitt væri ólöglegt og við þurftum að hóa í portúgalskan viðgerðamann sem var að saga,“ segir Arna, og á þá við stöngina, eða stuðarann, sem heldur aftari dekkjunum á hjólinu. Hann var of langur og því þurfti að stytta hann, örfáum mínútum fyrir keppni.

„Til þess að verða svona góður, þá þarftu að hjóla einn sólarhring í viku í fimm til tíu ár og það er bara vinna sem ég er ekki búin með, en þær eru klárlega búnar með. Þannig að ég held ég eigi alveg slatta inni.“

Næsta Ólympíumót verður í París eftir þrjú ár, eða árið 2024. Arna segist stefna þangað. „Ég held að þetta hjálpi mér rosalega mikið með að komast þangað. Að vita hvað ég þarf að gera aðallega.“

Arna segir það hafa verið algjörlega frábært að fá að komast á Ólympíumótið, hún hafi sjálf ekki endilega átt von á því. „Þetta verður kannski svolítið sögulegt mót að mörgu leyti, þetta covid-mót. Við erum búin að vera í sóttkví í þrjár vikur og þetta er búið að vera mjög skrautlegt, en skemmtilegt. Ég er bara fáránlega heppin að komast hingað, ég átti ekki von á þessu og margir sem ekki áttu von á þessu. Fáránlega heppin með lið í kringum mig hérna úti, það er bæði skemmtilegt og hresst, þó svo að við höfum verið tvær í hjólreiðateyminu að renna svolítið blint í sjóinn. Liðið frá íþróttasambandinu geggjað, fáránlega gott skipulag þar og við fengum til dæmis að fara í æfingabúðir til Tama. Mér heyrist að það sé mjög sjaldgæft, það voru margir að koma bara nokkrum dögum til Japan fyrir keppni. Svo hef ég bara verið heppin á ferlinum með þjálfara og fólkið í kringum mig. Ég bara gæti ekki verið heppnari með það.“

Arna slasaðist alvarlega á skíðum fyrir fimmtán árum, þá 16 ára gömul. Hún var bráðefnileg skíðakona og spilaði að auki fótbolta með BÍ/Bolungarvík. Arna hlaut mænuskaða í slysinu og líf hennar gjörbreyttist. Nú fimmtán árum síðar, varð Arna fyrst Íslendinga til að keppa í handahjólreiðum á Ólympíumóti. „Eftir að ég slasaðist var mér sagt að ég ætti ekki að vera lifandi. Einn læknarinn, sem ég hitti á Íslandi, sagði að ég ætti eiginlega að vera dáin. Eftir slysið átti ég mörg erfið ár. Að vera komin hingað er bara ólýsanlegt. Þótt að það sé ótrúlega erfitt og stórt verkefni að vera með mænuskaða, þá er ég bara ótrúlega heppin finnst mér í lífinu.“

Það er óhætt að segja að Arna sé stórkostleg fyrirmynd og mögnuð íþróttakona. Og skilaboðin hennar eru einföld: „Í alvöru, ef ég get þetta. Þá geta þetta gjörsamlega allir. Að vera nógu klikkaður til að prófa það sem manni dettur í hug. Það er bara allt hægt, í alvörunni.“