Sundmaðurinn Már Gunnarsson keppti í undanrásum 200 metra fjórsunds á Ólympíumótinu í Tókýó í nótt. Hann komst áfram í úrslit með áttunda besta tímann.
Már synti í fyrri undanriðlinum og kom í bakkann á 2:39,63 mínútum og varð fjórði í sínum riðli af sex keppendum. Þegar úrslitin voru ráðin í seinni riðlinum var ljóst að Már hefði komist áfram með áttunda besta tímann og náði því síðastur inn. Hann var með níunda besta tímann fyrir sundið og því frábært að komast í úrslitin.
„Mér fannst þetta bara fínt. Ég finn það vel að ég er enn mjög uppgefinn eftir átök laugardagsins, ég veit ekki ennþá hvort ég er kominn í úrslit, ég var fjórði í mínum riðli. Ég var svolítið hægari en minn besti tími,“ sagði Már eftir sundið, en í miðju viðtali varð það ljóst að Már komst áfram og keppir í úrslitunum í kvöld klukkan 18:53 í Japan, eða klukkan 9:53 að íslenskum tíma.
Már lenti í ansi skemmtilegu atviki í lauginni þegar komið var að bringusundskaflanum.
„Það skemmtilega við þetta sund er að þetta er í fyrsta skipti sem ég gef keppinauti undir fótinn í miðri keppni. Ég greip í fótinn á keppanda á braut þrjú í bringusundinu. Og ég veit ekki einu sinni hvort hann er sætur eða ekki, þannig að þetta er pínu vesen,“ segir Már, sem mögulega er búinn að finna leið til að synda bringusundið betur í kvöld.
„Ég er mjög sterkur í baksundinu en því miður er það bara 25% af þessum fjórum ferðum. Ég sökka í bringusundi, ég hefði kannski bara átt að halda fast í þennan fót sem ég greip í og hefði bara getað fengið að fljóta með yfir.“