Kona sem varð fyrir ofbeldi og grófri kynferðislegri áreitni af hálfu landsliðsmanns í knattspyrnu furðar sig á að formaður Knattspyrnusambands Íslands fullyrði að engin tilkynning hafi borist sambandinu um kynferðisbrot leikmanna. Konan segir að lögmaður á vegum KSÍ hafi boðið henni þagnarskyldusamning sem hún hafnaði. Sjálfur hafi landsliðsmaðurinn svo gengist við brotinu og greitt miskabætur. Formaður KSÍ segir ummælin hafa verið mistök.
Þórhildur Gyða Arnarsdóttir var stödd á skemmtistað í Reykjavík laugardagskvöld eitt í september 2017 þar sem þekktur landsliðsmaður í fótbolta var staddur.
„Hann grípur sem sagt í klofið á mér. Síðan á sér stað líkamsárás aðeins seinna þar sem hann tekur mig hálstaki í stutta stund. Þar sem það skarst annar einstaklingurinn inn í. Ég var með áverka í tvær til þrjár vikur eftir hann. Strax daginn eftir fæ ég áverkavottorð og fer síðan niður á lögreglustöð og legg fram kæru. Við vorum tvær sem urðum fyrir því sama af hans hálfu þetta umrædda kvöld og við fórum saman að kæra,“ segir Þórhildur.
Lítið virtist miða áfram í lögreglurannsókninni. Hálfu ári eftir atvikið ætlaði faðir Þórhildar að fara á vináttulandsleik. Þegar hann áttar sig á að umræddur fótboltamaður er í landsliðshópnum sendir hann stjórnarmeðlimum KSÍ tölvupóst og greinir frá kærunni - og fær svar frá Guðna Bergssyni, formanni KSÍ, sem segist taka málið alvarlega.
„Hann hringir í foreldra mína báða, í símann hans pabba en hann talar við báða foreldra mína,“ segir Þórhildur.
Og þetta eru einhver 2-3 símtöl og segir?
„Hann segir að það verði afleiðingar. Hann greip til aðgerða, hann tók hann úr hópnum um tíma. Eftir minni bestu vitund þá átti Guðni alveg að gera sér grein fyrir því að þetta var alvarlegt og ég veit ekki betur en að þetta sé tilkynning um ofbeldi,“ segir Þórhildur.
Rætt var við Guðna í Kastljósi í gær þar sem hann sagði að mál væru sett í ákveðið ferli komi inn kvörtun um leikmenn.
„Við verðum alla vega að fá einhvers konar tilkynningu eða eitthvað slíkt, hvort sem það er frá vitnum eða þolendum,“ sagði Guðni í Kastljósi í gærkvöldi.
Hafa svona mál komið inn á borð hjá ykkur?
„Ekki, ekki í raun og veru með formlegum hætti. Við höfum ekki fengið, ekki í raun og veru kvörtun eða einhvers konar ábendingu með það að einhver tiltekinn hafi gerst sekur um kynferðisbrot,“ sagði Guðni.
Þessi orð Guðna komu Þórhildi á óvart.
„Ég er rosalega, rosalega hissa á því og finnst það í raun vanvirðing við mig og fjölskyldu mína,“ segir Þórhildur.
Sama dag og faðir Þórhildar sendi tölvupóstinn á KSÍ sendi hann forseta Íslands tölvupóst og fékk svar.
„Í svarinu frá forsetanum kemur fram að hann hafi haft samband við Guðna Bergsson, út af öðru að vísu en hann hafi nefnt þetta,“ segir Þórhildur.
Þórhildur fékk síðan símtal frá lögmanni sem bauð henni að koma á fund hjá KSÍ.
„Og spyr hvort ég sé tilbúin til að skrifa undir þagnarskyldusamning og fá miskabætur líka. Og ég náttúrulega sagði nei. Ég fæ sem sagt símtal frá öðrum lögmanni og hann boðar mig á fund þar sem landsliðsmaðurinn vildi biðjast afsökunar,“ segir Þórhildur.
Neitaði þessi landsliðsmaður að hafa gert eitthvað á þinn hlut?
„Nei, hann neitaði engu. Hann baðst afsökunar og játaði það sem ég sagði honum að hann hefði gert mér. Hann dró það ekki í efa,“ segir Þórhildur.
Greiddi hann þér miskabætur?
„Já. Og ég á í raun ekkert persónulega við hann persónulega að sakast. Samt sem áður var ég ekki að búast við því að hann yrði valinn aftur í landsliðið af því að KSÍ veit af ofbeldinu og velur að vera með gerendur ofbeldis innan sinna raða,“ segir Þórhildur.