Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að það hafi verið mistök að segja í Kastljósviðtali í gærkvöldi að engin tilkynning hafi borist sambandinu um kynferðisbrot af hálfu leikmanns í landsliði karla í knattspyrnu. „Mig minnti að þetta brot hefði verið ofbeldisbrot og ekki af kynferðislegum toga,“ segir Guðni.
Af hverju svaraðir þú svona í Kastljósi í gær?
„Ja, ég gerði það eftir bestu vitund. Mig minnti að þetta brot hefði verið ofbeldisbrot og ekki af kynferðislegum toga. En miðað við það sem þú sendir á mig og ég las svo yfir þá sé að svar mitt var ekki nákvæmt og í raun og veru ekki rétt miðað við þessa atvikalýsingu. Og ég biðst velvirðingar á því að sjálfsögðu,“ segir Guðni.
En þú fékkst lýsingu á atvikum þegar þú áttir í samtölum við foreldra stúlkunnar?
Já, það var atvikalýsing. Gerandi var ekki með sömu sögu að segja um það en alla vega eins og ég sagði þá minntist ég þess þannig að þetta hefði verið ofbeldisbrot,“ segir Guðni.
Þannig að það voru mistök hjá þér að segja þetta í Kastljósi í gær?
„Já, það voru mistök og ég biðst velvirðingar á því,“ segir Guðni.