Sundmaðurinn Már Gunnarsson stakk sér til sunds í fyrsta sinn á Ólympíumótinu í Tókýó í nótt þegar hann keppti í undanrásum 50 metra skriðsundsins í flokki blindra. Már komst ekki í úrslit en hann vildi nýta sundið í góða upphitun fyrir baksundið á morgun.
„Mér líður bara vel. Ég hefði viljað sjá bætingu en þetta er hálf sekúnda frá mínu besta. En eins og við hugsuðum þetta til að byrja með að þá var þetta sund til að prófa laugina og það var akkúrat það sem ég gerði. Þannig að þetta er bara fínt.“
Már endaði í þrettánda sæti af þeim fjórtán sem kepptu. Hann hefur náð frábærum árangri í baksundi og keppir hann í undanrásum 100 betra baksundsins á morgun. Það var því lagt upp með það frá byrjun því að áherslan færi á þá grein.
„Þetta var í rauninni bara að prófa að fara í gegnum rútínuna, hoppa ofan í og synda. Að mörgu leyti er þetta bara gríðarlega gott, ég skar mig hvergi og synti ekki á bakkann. Þannig að ég kem 100% út heill upp úr þessu. Þannig að það er það sem skiptir mestu máli, að slasa sig ekki,“ segir Már.
Már ætlar að nýta daginn í hvíld og hlaða tankinn fyrir undanrásirnar á morgun. Hann syndir klukkan 1:24 að íslenskum tíma og verður sýnt beint frá sundinu á RÚV og RÚV.is.