Átta ára gamall draumur Örnu Sigríðar rætist þann 1. september þegar hún hefur leik á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó. Arna æfir þessa dagana úti á svölum í Ólympíuþorpinu þar sem hún þarf að eiga við mikinn hita og raka.

Arna Sigríður Albertsdóttir er að keppa á sínu fyrsta Ólympíumóti en hún keppir í handahjólreiðum. Arna Sigríður er jafnframt fyrsti Íslendingurinn sem keppir í greininni á Ólympíumóti. 

Þrátt fyrir að Arna hafi sett stefnuna á að komast á Ólympíumótið átti hún ekki endilega von á því að komast á mótið í ár og hún segir það vera mikla upplifun að vera mætt í Ólympíuþorpið. „Þetta hefur verið um það bil átta ár, sem Ólympíumót hefur verið markmið. Þannig að það var alveg frábært. Ég átti ekki endilega von á því að komast á mótið í ár þannig að það er alveg sérstaklega gaman að vera komin hingað,” segir Arna.

Sama stemning og hjá Eurovision-hópnum

Íslenski hópurinn í ár er nokkuð fjölmennur en auk Örnu eru fimm aðrir keppendur frá Íslandi. Arna segir ótrúlega gaman að vera hluti af svo fjölmennum og fjölbreyttum hóp. „Það er ótrúlega gaman. Þetta er mjög stór hópur og það er búið að vera rosalega gaman hjá okkur. Við erum fjölbreytt og ólík en náum vel saman og það er rosalega góð stemning, eins og allir Eurovision-farar segja alltaf,” segir Arna.

Arna keppir í handahjólreiðum og tekur því bæði þátt í tímatöku og götuhjólreiðum. „Ég er sem sagt á handahjóli og keppi í tveimur greinum. Önnur er tímataka, þá fer ég ein af stað og þá fara keppendur af stað með eins mínútna millibili. Núna eru það tveir hringir sem við förum og þá er tekinn tíminn og sá sem er fljótastur vinnur. Daginn eftir eru götuhjólreiðar. Þá fara allir saman af stað, eins og við þekkjum frá Frakklandshjólreiðunum, þá er málið að vinna saman og reyna að láta einhvern annan taka vindinn fyrir sig og vera alveg upp við hann. Spara orku með því. Þá eru notuð úrslit úr tímatökunni frá því deginum áður og sú sem er með besta tímann er fremst og svo koll af kolli,”

Rennir blint í sjóinn

Á síðustu mánuðum hefur Arna lítið getað keppt og segist því renna nokkuð blint í sjóinn auk þess sem hún er ekki með á hreinu hversu mikið mótherjar hennar hafa getað keppt að undanförnu. Hún segist einnig reikna með að vera sú sem hefur minnsta keppnisreynslu á mótinu. „Þetta er líka óvenjuleg braut fyrir okkur. Hún er stutt, hún er brött og það er mikið af beygjum. Það er mikið af óvissuþáttum. Ég er örugglega með minnstu keppnisreynsluna af þeim sem eru hérna, en það segir kannski ekki neitt. Ég reikna alveg með því að fara fyrst af stað í tímatökunni, þeir sem eru með flesta punkta fara síðastir af stað. Þannig að byrjendur eru yfirleitt fremst þannig að ég er undirbúin fyrir það. En ég ætla ekki að láta neinn ná mér, það er allavegana markmiðið,” segir Arna Sigríður.

Þegar Arna pantaði sitt fyrsta handahjól hafði hún aldrei prófað handahjólreiðar áður. Sem betur fer hafði hún gaman af íþróttinni. „Ég hlaut mænuskaða þegar ég var 16 ára og bjó á Ísafirði. Það er kannski ekkert rosalega mikið í boði þar, vegna þess hversu fáir búa þar. Ég fann þetta á netinu og ákvað að prófa. Ég var í íþróttum fyrir slys og fann að mig vantaði bæði íþróttir og útiveru, en það er líka það sem ég er að sækjast í með hjólreiðunum. Ég pantaði eitthvað hjól á netinu frá Bandaríkjunum og byrjaði þar,” segir Arna. 

Þarf að æfa úti á svölum

Aðstæðurnar í Tókýó eru vissulega aðrar en Arna á að venjast. En það er bæði heitt og rakt úti. Vegna þess hversu margir eru á ferli í Ólympíuþorpinu stendur Örnu ekki til boða að fara út að hjóla og hún þarf þess vegna að vera með öll sína æfingatæki á svölunum. „Það er rosalega heitt. Þetta er mikið heitara en ég er vön. Það er rosalega mikill raki sem kemur líka inn. Það eru rosalega margir í Ólympíuþorpinu og það er ekki í boði að fara út á götu og hjóla, eins mikið og ég væri til í það. Þannig að við erum bara inn á svölum og það er rosalega rakt og engin loftkæling. Það er mjög mikill sviti þarna, þetta er dálítið eins og að hjóla inni í gufubaði,” segir Arna.

Nánar er fjallað um Örnu Sigríði í Ólympíukvöldi fatlaðra sem er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 20.00