Tékkneska listakonan, Monika Fryčová, er komin vel á veg með að búa til veitingastað úr gömlu stýrishúsi á Seyðisfirði. Hún segir að húsið sé eins og ljóð sem fjalli um tímann.
Ferðamenn sem ganga kringum lónið á Seyðisfirði rekur í rogastans þegar þeir koma að furðulegu mannvirki sem þar er að taka á sig mynd.
„Þetta er stýrishús frá 1969 og skipstjórnarklefi sem var í skipi og var yfirgefið í mörg ár. Þegar covid brast á hugsaði ég að það væri tilgangslaust að sitja við tölvu og hugsa um sjálfa mig og bíða eftir því að veikjast. Þá fór ég að hugsa um hvernig ég gæti búið til almannalist fyrir aðkomumenn og heimamenn og búið eitthvað þýðingarmikið til úr þessum hlut. Hér verður lítill bar þar sem ég býð upp á fiskisúpu, kaffi og vonandi bjór. Hér verður annað borð. Þegar ég hef verkað allt þetta timbur bý ég til aðstöðu til að sitja hér og horfa út um gluggann," segir Monika.
Þetta litla menningarhús heitir Kiosk 108 og Monika er þegar farin að selja límmiða og boli til að fjármagna uppbygginguna. Verkefnið fékk líka styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands. Í einu skúmaskotinu ætlar hún að koma fyrir barnahorni og uppi á þaki geta listamenn spilað tónlist, leikið og dansað. Og hún ætlar að leyfa ryðinu að njóta sín. „Náttúran eða tíminn gerði þetta svona. Þetta finnst mér algjör fegurð, það fer eftir smekk manna en mér finnst gott að sýna þetta og sjá þetta. Ekki að fela þetta. Ég er mjög hamingjusöm. Ég er þreytt en ég ætla að halda áfram og næst þegar þú kemur færðu drykk og mat hjá mér. Heimafengið og alveg ekta. Með smá tónlist.“