Mótmælandi bólusetninga hrópaði á þá sem voru á leið í bólusetningu fyrir utan Laugardalshöll í morgun. Í dag heldur bólusetning 12-15 ára barna á fram í höllinni.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá hvernig fólk sem beið í röð, annað hvort sjálft á leið í bólusetningu eða með börn sín, reyndi að fá manninn til þess að láta af hrópum sínum en hann lét ekki segjast.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var manninum vísað frá svæðinu af lögreglu, en var ekki handtekinn.

Fyrr í sumar var kona handtekin þegar hún mótmælti bólusetningu þungaðra kvenna. Sú veittist að heilbrigðisstarfsfólki og lét öllum illum látum.

Arnar Rúnar Marteinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var á staðnum og segir að maðurinn hafi verið í fimm manna hópi en verið sá eini sem greip til mótmæla. Honum var þá vísað á brott eftir að lögregla hafði rætt við hann. Ekki voru frekari eftirmálar. 

Var þetta eitthvað sem þið áttuð von á? 

„Við áttum alveg von á að það væri eitthvað. Hér er tjáningarfrelsi og við erum hérna til að halda uppi allsherjarreglu og það var það sem við gerðum, “ sagði Arnar Rúnar Marteinsson. 

Fréttin hefur verið uppfærð.