Barnaverndarstofu bárust ríflega 45% fleiri tilkynningar um líkamlegt ofbeldi gegn börnum á fyrri helmingi þessa árs en á sama tíma árið 2019 og meira en 65% fleiri tilkynningar um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. 

Heimilisofbeldi hefur verið kallað skuggahlið heimsfaraldursins. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur talað um faraldur ofbeldis gegn konum, en sem dæmi má nefna að í Pakistan fjölgaði tilkynningum um heimilisofbeldi um 200 prósent eftir að faraldurinn skall á. Hér heima fjölgaði einnig tilkynningum um heimilisofbeldi og tvær konur voru myrtar innan veggja heimilisins.

Árið 2019 leituðu 565 einstaklingar til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, í fyrsta viðtal. Í fyrra voru þeir 827, sem er aukning um ríflega 47% milli ára. Mikill meirihluti leitaði þangað vegna heimilisofbeldis.

Komum í Kvennaathvarfið fjölgaði um tíu prósent í fyrra samanborið við árið áður, fóru úr 689 í 758. Rauði þráðurinn var sá að þær voru orðnar mjög hræddar við makann og óttuðust um öryggi og jafnvel líf sitt og barnanna. Fleiri konur nefndu ofbeldi gegn börnum sem ástæðu fyrir komu í athvarfið en árið áður. „Við vitum ekki hvort það er endilega vegna þess að ofbeldi gegn börnum hafi aukist á þessum heimilum eða hvort að þessi gríðarlega umræða um aðstæður barna á ofbeldisheimilum hafi kannski skilað því að fólk, og þar með þessar mæður sem koma, líti á ofbeldi á heimili sem ofbeldi gegn börnum, jafnvel þó að það beinist ekki að barninu sjálfu,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf. 

Á fyrri helmingi ársins 2021 bárust Barnaverndarstofu hátt í fimm hundruð tilkynningar vegna líkamlegs ofbeldis gegn börnum sem eru næstum helmingi fleiri en á sama tíma árið 2019. Tilkynningum vegna kynferðislegs ofbeldis fjölgaði mikið á milli ára. Á fyrstu sex mánuðum ársins bárust hátt í 400 tilkynningar vegna kynferðislegs ofbeldis, en voru ríflega 200 á sama tímabili 2019.

„Eitt af því sem við erum að sjá er aukning á því sem við köllum stafrænt kynferðisofbeldi,“ segir Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu. Hún segir að aukningu í þeim brotaflokki megi að einhverju leyti rekja til þess að fólk hefur verið meira heima í faraldrinum, en veltir fyrir sér hvort vitundarvakning um kynferðisofbeldi hafi þar líka áhrif.

Rannveig Þórisdóttir, félagsfræðingur og sviðstjóri hjá Ríkislögreglustjóra, segir að fjölgun tilkynninga þurfi ekki endilega að tákna fjölgun brota, heldur leiti mögulega fleiri aðstoðar eða til lögreglu en áður. „Við sjáum það til dæmis í þolendakönnunum hjá okkur þegar við spyrjum þá sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi hvort þeir hafi tilkynnt brotið til lögreglu, þar sjáum við bæði fjölgun þeirra sem segjast leita til lögreglu og einnig fjölgun þeirra sem segjast líta málið alvarlegum augum,“ segir Rannveig. Aukin umræða og stuðningur við þolendur skili sér í því að fleiri leita aðstoðar og leita réttar síns.

Þeir sem hafa orðið fyrir eða telja sig vita um einhvern sem er þolandi ofbeldis eru hvattir til að hringja í 112.

Rætt var við þær Sigþrúði, Heiðu Björgu og Rannveigu í Speglinum.