Sjóbúð sem gæti verið frá landnámi fannst óvænt við fornleifauppgröft á Seyðisfirði í sumar. Þar hefur líka verið grafin upp 200 ára gömul mylla en þær voru algengar á landinu um og eftir 1800.
Áður en snjóflóðavarnir verða reistar í Seyðisfirði þarf að ljúka við að grafa upp fornleifar undir Bjólfi. Þar var samfelld búseta í þúsund ár og í sumar hefur ýmislegt fundist af áhugaverðum gripum. „Við höfum fundið fjölmarga öngla. Fiskiöngla misstóra og af mörgum gerðum. Þessi er mögulega til að veiða hákarl og það sem er sérstakt við hann er að það er blý á honum sem hefur verið steypt á með móti. Það er lagt yfir og steypt. Það hefur verið mikil vinna lögð í þennan,” segir Hulda Björk Guðmundsdóttir, fornleifafræðingur hjá Antikva. Fleira hefur fundist svo sem lyfjaglös, mikið af leirgrotum og útgangur frá breska hernum sem hafði bækistöð í Seyðisfirði í seinni heimsstyrjöld.
Einnig var í sumar grafin upp gömul mylla sem hefur verið heilmikið mannvirki með áveitu og vatnsstýringu. „Þetta er að við teljum vera öxullinn úr hjólinu í myllunni. En við höfum grafið upp myllu sem er sennilega frá 1800-1860. Getum aldursgreint hana út frá gjóskulagi sem liggur yfir henni sem er 1875 úr Öskju. Þetta er í fyrsta skipti sem mylla er grafin upp þannig að þetta er ansi spennandi rannsókn og hún var nokkuð vel varðveitt,“ segir Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur hjá Antikva.
Jarðvegssýni eiga að segja til um hvað var malað í myllunni og þá verður gert þrívíddarlíkan af henni og reyndar öllum rústunum. Og þær leyna á sér. „Við erum búin að grafa hérna í allt sumar. Bæjarstæði frá 19. öld sem fór í snjóflóðinu 1885. Og vorum bara á síðustu dögunum að fara að ljúka þessu þegar kemur í ljós að við erum með minjar þarna frá því fyrir 1362 og okkur sýnist allavega hluti af þeim vera 10. og 11. öldin. Mín fyrsta túlkun er að þetta séu minjar sem tengjast sjósókn og sé þá nytjastaður sem Fjörður hefur nýtt, eða ábúendur í Firði, sem er landnámsbærinn í Seyðisfirði,“ segir Ragnheiður.
Húsin hafa staðið við sjó því á þessum tíma náði sjórinn mun lengra inn í landið. Þau hafa strax fundið fisk- og hvalbein og spennandi verður að vita hvað leynist í jörðu.
„Ef þetta tengist sjósókn þá vænti ég þess að finna kannski einhverja gripi sem tengjast því eins og vaðsteina og öngla og kannski brýni og kannski ekki hefðbundna gripi sem myndu finnast við bæjarstæði. Það er náttúrlega mjög spennandi líka að tengja þetta saman því næsta sumar erum við að fara að grafa upp hluta af bæjarstæðinu í Firði og þá erum við kannski komin með einhverja heildarsögu eftir einhver tvö ár,“ segir Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur hjá Antikva.