„Mér finnst ekki endilega að fólk þurfi að tala um kyn í sambandi við tónlist,“ segir Ragnhildur Gísladóttir í Tónaflóði í kvöld. Um ræðir nýja hljómsveit sem steig á stokk í fyrsta skipti í rétt í þessu en hún ber heitið JIENSÆTT og er skipuð flottum konum.
Þær Ragnhildur Gísladóttir, eða Ragga Gísla, og Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir, betur þekkt sem LayLow, settust niður með Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur í Tónaflóði í kvöld og sögðu frá nýrri hljómsveit sem þær hafa stofnað.
Þær byrja á toppnum í beinni útsendingu í Hörpu. „Við ætlum bara að skutla okkur út í djúpu laugina,“ segir Ragga en sveitin byrjaði að æfa saman síðasta mánudag. Hugmyndin er að hljómsveitin muni skipta reglulega um nafn haldi þær áfram, en í augnablikinu ber sveitin nafnið JIENSÆTT.
„Við erum að taka lög eftir konur sem við höldum upp á,“ segir LayLow og ætla þær að setja lögin í skemmtilegar útsetningar. „Við förum ekkert langt í burtu með þau, en við erum að leika okkur svolítið,“ bætir Ragga við.
Þó að hlómsveitin sé alskipuð konum er hún ekki hugsuð sem kvennasveit, heldur er þetta einungis góður hópur sem hefur gaman að því að spila saman.
Hér að neðan má sjá hljómsveitina JIENSÆTT taka lagið Góða tungl eftir hljómsveitina Samaris.