Leiðbeiningar um sóttkví þegar smit greinast í skólum eru í endurskoðun. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að unnið sé að því í samráði við skólakerfið hvort einfalda megi ferlið, svo að ekki þurfi jafnmargir að fara í sóttkví þegar smit greinast í skólum.
Smit hafa komið upp í fjölmörgum leikskólum síðustu daga en fyrir helgi greindi fréttastofa frá því að hátt í 400 börn væru í sóttkví á höfuðborgarsvæðinu vegna smita á sjö leikskólum og þremur frístundaheimilum.
Skólastarf hefst í grunn- og framhaldsskólum á allra næstu dögum. Er ekki ofsögum sagt að margir foreldrar kvíði haustinu og sjái jafnvel fram á heilu vikurnar í sóttkví ef smittíðni verður jafnhá og verið hefur og sóttkvíarreglur haldast óbreyttar.
Þá hefur nokkurrar óvissu gætt um það hverjir þurfa að fara í sóttkví ef smit greinist í skóla, þ.e. hvort allir á heimilinu þurfi að fara í sóttkví með barni. Þórólfur telur „ótímabært“ að ræða þetta í ljósi þess að reglurnar séu í endurskoðun.
Hann minnir enn fremur á að smitrakning, sóttkví og einangrun hafi verið kjarninn í aðgerðum til að hamla útbreiðslu veirunnar. „Þannig að við þurfum að fara mjög varlega í því ef við ætlum að gefa einhvern afslátt af sóttkví. Það gæti komið fljótt í bakið á okkur,“ segir Þórólfur.