Öryrkjabandalag Íslands og foreldrar barna sem glíma við ýmiss konar raskanir ætla í mál við sveitarfélög vegna réttindabrota gagnvart þeim. Þau vilja að börnum verði veitt þjónusta innan skólanna sjálfra, en ekki úti í bæ.
Lögfræðingar Öryrkjabandalagsins sendu fyrr í sumar bréf til fjögurra skóla sem þau telja virða að vettugi þá sáttmála sem innleiddir eru í íslensk lög og eiga að tryggja börnum skilyrðislausan aðgang að menntun. Til að vekja máls á brotalöm í skólakerfinu tóku foreldrar barna sig saman og hrintu af stað verkefni sem ber heitið Sagan okkar. Þar segja þjóðþekktir íslendingar sögur barna og foreldra úr kerfinu.
„Það kom þannig til að ég sjálf gekk á vegg. Ég er orðin þreytt á því að heyra það að það sé ekki til peningur fyrir ákveðnum úrræðum, það sé ekki hægt að mæta barninu mínu með þeim hætti sem þarf að mæta því í þessu gríðarlega flotta samfélagi sem við búum í. Ég fór að skrifa pistla til að vekja athygli á þessu. Eftir það fór fólk að hafa samband við mig. Það fylltist inboxið og ofsalega margir foreldrar í sömu stöðu. Ég ákvað að skrifa fleiri pistla og vekja meiri athygli á þessu. Mig langaði að samfélagið vissi hvað er í gangi í skólakerfinu. Ég vissi að þetta væri búið að vera falið vandamál af því að fólk þorir ekki að stíga fram.“ segir Alma Björk Ástþórsdóttir, móðir og námsmaður og ein þeirra foreldra sem standa að verkefninu #Saganokkar.
Fyrir 15 árum síðan var innleidd í grunnskólum stefna sem nefnist Skóli án aðgreiningar.
„Ég sjálf var nú foreldri barns á þessum tíma sem var að stíga sín fyrstu skref inn í grunnskólunum. Þar var talað um einstaklingsmiðað nám og mæta þörfum barnanna þar sem þau væru. Það var ekki mín upplifun á þeim tíma en þá hafði maður ákveðna þolinmæði. Það er verið að breyta kerfinu og það á að gera það betra og það á að mæta þessum börnum. Það tekur tíma en núna 15 árum seinna þá er tíminn á þrotum. Við getum ekki látið þetta dankast svona áfram.“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Krafa foreldranna er að börn fái úrræði, svo sem talþjálfun, félagsráðgjöf og fleira innan veggja skólanna.
„Við viljum sjá fagaðila inni í öllum skólum. Við erum með skóla margbreytileikans. Við erum ekki lengur með sérskóla. Það eiga öll börn að geta farið í sinn hverfisskóla alveg sama, óháð andlegu eða líkamlegu atgervi. Það þýðir líka að við þurfum að vera með ákveðna flóru til að mæta þeim. Við getum ekki ætlast til að kennarar geti stigið inn í öll verksvið. Þú setur ekki rafvirkja í píparaverk.“ segir Alma Björk.