„Þrátt fyrir titilinn, Góðan daginn faggi, sem er bæði stuðandi og nokkuð skondinn, þá er verkið hádramatískt og átakanlegt,“ segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi um fyrsta leikverk nýs leikárs.


Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Þá er nýtt leikár hafið og fyrsta frumsýningin í haust, þótt mögulega sé fullsnemmt að tala um haust, er söngleikur. Nokkuð óvenjulegur söngleikur, því hann er ekki með stórum hópi dansara og söngvara á stóru sviði, heldur einleikur sem fer fram í Þjóðleikhúskjallaranum. Það er ekki það eina óvenjulega við þennan söngleik, hann er sjálfsævisögulegur og persónulegur, og höfundar hans titla hann heimildasöngleik, og ætli það sé ekki nokkuð nákvæm lýsing því söngleikurinn er byggður á lífi leikarans og dagbókum sem hann hefur haldið í gegnum tíðina, að því er virðist alveg frá því hann lærði að lesa og skrifa, allt til dagsins í dag.

Góðan daginn faggi, heitir verkið, og leikarinn Bjarni Snæbjörnsson er í aðalhlutverki, en sagan sem er sögð er í nokkuð stuttu máli frásögn hans um hvernig hann kom út úr skápnum og hvernig hann hefur þurft að kljást við eigin fordóma. Fordóma sem hafa verið prentaðir inn í huga hans frá því hann var lítill drengur á lúmskan hátt. Sjálfshatur.

Með honum á sviðinu á hljómborði er tónskáldið Axel Ingi Árnason, meðhöfundur og leikstjóri er Gréta Kristín Ómarsdóttir. Það er ekki hægt að tala um eiginlega sviðsmynd, en stílisti sýningarinnar er sviðsmyndahönnuðurinn Eva Signý Berger, og um sviðshreyfingar sá danshöfundurinn Cameron Corbett.

Manni gæti fyrirgefist að halda að hér væri létt kvöldskemmtun á ferð. Sýningartíminn er seint að kvöldi, níu á virkum dögum og tíu um helgar, og áhorfendur sitja við borð á víð og dreif, þar sem þeir geta pantað sér drykki og veitingar. En þrátt fyrir titilinn, Góðan daginn faggi, sem er bæði stuðandi og nokkuð skondinn, þá er verkið hádramatískt og átakanlegt. Bjarni fékk taugaáfall fyrir nokkrum árum og í kjölfar þess byrjaði hann að skoða persónuleg bréf og dagbókaskrif úr æsku sinni á Tálknafirði allt til ársins 2020 þegar hann er orðinn fertugur, fastráðinn þjóðleikhúsleikari, og það ferli virðist hvorki hafa verið auðvelt, né er afraksturinn á sviði alltaf auðveldur áhorfendum.

Það er sennilega engum auðvelt að fara í saumana á öllum dagbókarskrifum, hvort sem það eru einlægar vangaveltur úr nútímanum eða innilegustu leyndarmál unglingsáranna. Í það minnsta myndum við flest verða örlítið vandræðaleg yfir lífsskoðunum og vangaveltum unglingsáranna ef við gætum nálgast þær í gegnum dagleg dagbókarskrif. Fæst okkar hefðu hugrekkið til að lesa slík persónuleg skrif upp á opinberum vettvangi, en langflest erum við heldur ekki leikarar, sem eðli málsins samkvæmt eru gefnari fyrir ítarlega sjálfsskoðun. Það er athyglisvert hvað dagbókarskrif frá tíma Bjarna í Listaháskólanum segja okkur margt um hugmyndir okkar um hvernig kyngervi og kynferði birtast á leiksviði. Ef samkynhneigðir leikarar og leikkonur væru útilokuð frá öllum,  „gagnkynhneigðum“ hlutverkum þá hefðu þau aðgang að mjög fáum hlutverkum. Bjarni biður bekkjarsystur sínar um að benda sér á þegar hann sé að leika hommalega, sem óhjákvæmilega vekur upp spurningar um hvaða svipbrigði og hreyfingar séu hommalegar og hverjar ekki. Hvenær er hommi hommalegur og hvenær ekki. Ég held að flest höfum við einhverja ómeðvitaða skoðun á þessu, eða öllu heldur einhverja fordóma, en Bjarni nefnir í sýningunni eitt tilvik þar sem hann missti hlutverk í auglýsingu vegna þess að hann þótti ekki nógu sannfærandi sem gagnkynhneigður karl, en engu að síður segist hann hafa verið heppinn að vera ekki type-castaður, ekki settur í hólf.

Ekki að ég vilji velta vöngum yfir því, hvort Bjarni sé að fara á mis við hlutverk eða fá hlutverk, vegna eða þrátt fyrir kynhneigð sína, en það er engu að síður staðreynd að íslensk leikhús, sér í lagi stofnanaleikhús, eru langt frá því að vera mjög fjölbreytilegir vinnustaðir, eða endurspegla þá þjóð sem býr í landinu. Það væri samt töluverður útúrdúr að ræða það hér og er alls ekki umfjöllunarefni Bjarna, en söngleikurinn hans er sýning sem fær mann til að hugsa. Ekki bara um hans lífsreynslu, heldur líka um sviðsetningu á samkynhneigð og þau hlutverk sem samfélagið ætlar hommum. Homminn sem skemmtikraftur eða hækja, en ekki hann sjálfur.

Saga Bjarna snýst mun meira um sjálfsfordóma en þá sem hann mætir í samfélaginu. Það er ekki kafað ofan í eineltið sem hann verður fyrir í barnaskóla sem „stelpustrákur“ og meiri fókus settur á það tilfinningalega uppgjör sem á sér stað milli hans og foreldra hans þegar hann loks kemur úr skápnum um tvítugt. Eins og Bjarni bendir á í sýningunni þá er hann fæddur 1978, sama ár og samtökin 78 eru stofnuð og á ævi hans hafa orðið miklar breytingar á stöðu hinsegin fólks í samfélaginu. Fyrsta skiptið sem hann heyrir orðið hommi ekki notað sem blótsyrði er þegar sjónvarpsfréttir í upphafi tíunda áratugarins segja frá því að söngvarinn Freddie Mercury sé kominn með alnæmi. Það er því ekki skrítið að það hafi verið erfitt að nota orðið til að lýsa sjálfum sér á fullorðinsárunum.

Sýningin er þó langt frá því að vera ein stór áfallasaga heldur er söngleikurinn Góðan daginn faggi með húmor fyrir sjálfum sér og þeim steríótýpum sem Bjarni í gegnum tíðina hefur reynt að falla inn í. Lagið sem Axel Ingi samdi um hommahækjuna er sprenghlægilegt, og samspil þeirra virkar vel. Bjarni er mjög meðvitaður um klisjurnar í kringum samkynhneigða karlmanninn og ást hans á söngleikjum og Eurovision og gerir nett grín að þeim og sjálfum sér um leið. Sönglögin eru misgóð, en Bjarni er með kröftuga söngrödd og Axel Ingi lágstemmda en sjarmerandi nærveru sem fær áhorfendur með þeim í lið, og þau lög sem eru góð eru mjög góð, og þau síðri renna hjá og gleymast hratt.

Eins og titill verksins gefur til kynna leyfir söngleikurinn sér alls konar orðbragð sem gagnkynhneigður gagnrýnandi á Rás eitt færi varla að hafa eftir í loftinu án þess að reyna verulega á þolmörk þess sem segja má í menningarumfjöllun. Það er líka óþarfi að segja frá of mörgu úr verkinu, Ástralíuferð, tilraunum til að eiga kærustur eða vandræðalegum bréfum til pennavina, og ég læt því duga að segja, að sýningin sveiflast mjög hratt á milli þess að vera fyndin yfir í að vera átakanleg, einlæg yfir í að vera kaldhæðin, úr yfirborðskenndri glansmynd forréttindahomma í jafnréttisparadís sem brosir og er jákvæður, yfir í hjarta sem virðist standa opið upp á gátt eins og dagbækurnar, með þeirri ólgandi og hráu kviku sem býr þar undir.

Góðan daginn faggi er ekki innantómt grín, heldur vel heppnað persónulegt heimildaleikhús sem skilur margt eftir hjá áhorfandanum. Maður kemst þó ekki hjá því að hugsa að ekki sé öll sagan sögð, að dagbækurnir búi yfir jafnvel enn meira krassandi og þar af leiðandi enn erfiðari efniviði. Að vinna svona með eigið sjálf, eins og sumir leikarar gera, felur í sér þá áhættu að virðast hégómlegur, en í þá gryfju fellur Bjarni aldrei, hann virkar frekar óþægilega heiðarlegur ef eitthvað er, en kannski er þörf á meiri úrvinnslu og lengri tilfinningalegri fjarlægð. Það er þrátt fyrir allt ekki mjög langur tími síðan Bjarni byrjaði að eigin sögn að horfast í augu við þennan innri hommahatara. Verkið er heldur ekki endanlegt uppgjör við fordómana, Bjarni gantaðist með það að sem einstaklingur fæddur árið '78 væri hann góður holdgervingur hinsegin baráttunnar, en það er kannski nokkuð til í því að þó svo að á yfirborðinu virðist öll réttindi áunnin og óumdeild, þá höfum við ekki endanlega upprætt þá fordóma sem við ólumst upp með heldur látum eins og hafi ekki lengur áhrif á okkur í dag.