„Við viljum taka valdið úr orðinu, gera það okkar,“ segir Bjarni Snæbjörnsson leikari um titilinn á söngleik sínum, Góðan daginn faggi. Verkið er einleikur Bjarna þar sem hann notast við gamlar dagbókarfærslur. Ekkert sé meira viðeigandi fyrir söngleikjahomma eins og hann en að gera upp líf sitt á þennan hátt.

Sjálfsævisögulegi heimildasöngleikurinn Góðan daginn faggi var frumsýndur í Þjóðleikhúskjallaranum á dögum. Sýningin er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og leikhópsins Stertabendu og eru höfundar og aðstandendur verksins Bjarni Snæbjörnsson, leikari, Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri, og Axel Ingi Árnason, tónskáld. Auk þess er gefið sýnishorn af glænýrri söngleikjatónlist sem prýðir verkið hér að neðan.  

Ekkert meira viðeigandi fyrir söngleikjahomma 

„Þetta er hundrað prósent mín saga sem við ákváðum að sviðsetja,“ segir Bjarni í samtali við Drífu Viðarsdóttur og Huldu Geirsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2. Fyrir nokkrum árum fann Bjarni gamlar dagbækur og bréf. „Mér fannst þetta svo áhugavert, fyndið, óbærilegt og fáránlegt allt saman, eins og maður upplifir þegar maður les gamlar dagbókarfærslur eftir sjálfan sig.“  

Bjarni hugsaði með sér að hann yrði að gera eitthvað við þessa pappíra og heyrði í þeim Grétu Kristínu og Axel, spurði hvort þau ættu að gera einleikssöngleik og þau svöruðu með hrópandi jái „Enda er ekkert meira viðeigandi fyrir Bjarna, verandi söngleikjahommi, að setja upp ævi sína í svona söngleikjaformi,“ bætir Axel við.  

Söngleikurinn er bæði fyndinn og dramatískur þar sem ævi Bjarna er gerð upp af næmni þess manns sem hann er í dag. „Hvernig sjáum við þetta og hvernig þetta var, og hver var þetta í alvörunni þrátt fyrir að sá aðili, sem ég var, vissi það ekki þá.“ 

Semur alltaf stóra og dramatíska tónlist  

Þeim fannst upplagt að vera með söngleikjatónlist við þessa dramatísku gamansögu. „Sem Axel Ingi gerir svo listilega vel,“ segir Bjarni. Axel skrifar tónlistina fyrir mismunandi tímabil og tilfinningar sem komu upp við ferlið.  

Axel er menntað tónskáld og þrátt fyrir að hafa aldrei skrifað tónlist fyrir söngleik áður hefur hann oft fengið þá gagnrýni að verk hans séu svolítið leikræn. „Ég held að öll tónlist sem ég hef skrifað hafi verið að einhverju leyti söngleikjatónlist. Það er allt svo dramatískt og stórt og mikið,“ segir hann.  

Bjarni og Axel höfðu aldrei unnið saman en þekktust í gegnum Listaháskólann og sameiginlega vinkonu sína, Grétu Kristínu. „En svo vissi ég að hann væri líka smá söngleikjahommi,“ segir Bjarni.