Áratugum saman hafa fornleifafræðingar rökrætt mikilvægi 900 ára gamallar grafar í Finnlandi sem geymir jarðneskar leifar manneskju, sem klædd er í kvenmannsföt en grafin með sverði karlkyns stríðsmanns.
Hlustið á innslagið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.
Frá því að gröfin var uppgvötuð, árið 1968, hafa rannsakendur hennar reynt að komast til botns í því hvort hún tilheyrir kvenkyns hermanni eða hvort gröfin tilheyrði hreinlega bæði konu og karlmanni, þ.e. tveimur manneskjum.
DNA-rannsókn varpar þó ljósi á þetta. Í nýrri grein í tímariti fornleifafræðinga, European Journal of Archaeology, er leitt að því líkum að gröfin hafi tilheyrt intersex manneskju, það er manneskju með ódæmigerð kyneinkenni sem haldin var svokölluðu Klinefelter-heilkenni sem veldur því að litningar hennar voru tvö X og eitt Y í stað dæmigerðra XY-litninga karla og XX-litninga kvenna. Fólki sem fæðist með slíka litningasamsetningu svipar oftar en ekki til karlmanna í útliti en það getur verið með testósteronskort og jafnvel myndað brjóst. Flest sem haldin eru heilkenninu eru ófrjó.
Kynsegin og intersex
Fólk sem er intersex er jafn fjölbreytt og það er margt og ódæmigerð kyneinkenni geta hvort heldur sem er verið sýnileg við fæðingu, þá á kynfærum fólksins, komið fram við kynþroska eða verið algjörlega hulin og jafnvel ekki orðið ljós fyrr en viðkomandi reynir að geta börn án árangurs. Það er því ekki hægt að segja til um hvort manneskjan sem lá í gröfinni í Finnlandi hafði sýnileg ódæmigerð kyneinkenni eða ekki.
Vísindamenn segja þó að greftrun einstaklingsins benda til að hann hafi skilgreint sig, eða verið skilgreindur, sem kynsegin. Það er að segja, kyntjáning viðkomandi hafi bæði verið kvenleg og karlleg samkvæmt nútímamælikvörðum. Kvenklæði manneskjunnar í bland við aðrar greftrunarhefðir og staðsetningu sverðsins henni á hægri hönd benda til þess að þarna hafi farið mikilsvirt manneskja í samfélagi sínu sem álitin var bæði karl og kona.
Ulla Moilanen, fornleifafræðingur hjá háskólanum í Turku í Finnlandi og yfirmaður rannsóknarinnar á þessari 900 ára gömlu gröf, segir í yfirlýsingu að ef einkenni Klinefelter-heilkennisins hafa verið áberandi sé ekki útilokað að manneskjan hafi af samferðarmönnum sínum hvorki verið skilgreind sem karl né kona. Aftur á móti sé ljóst að þarna hafi farið höfðingi eða einstaklingur í æðstu stétt samfélagsins. Staða, sem erfitt er að ímynda sér að kynsegin manneskja gæti hlotið í sumpart fordómafullu og einsleitu samfélagi tuttugustu og snemm-tuttugustu og fyrstu aldarinnar; nútímans eins og við þekkjum hann.
Kynhlutverk og staða kynja óskýrari á miðöldum
Ármann Jakobsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, segir rannsóknir benda til þess að hugmyndir almennings um kynhlutverk hafi verið sveigjanlegri á miðöldum en áður var talið.
„Það eru ekki nema svona 50 ár síðan fólk fór að skoða kynferði gagnrýnið á fyrri öldum. Það var svolítið gengið út frá því að nútíma skilgreiningar væru í raun og veru sígildar, það er að segja að sömu hlutir hefðu þótt karlmannlegir og kvenlegir á miðöldum og þykja það í dag. Síðan þá hefur kynferði verið talsvert rannsakað og niðurstaðan er að þetta er ekki svona einfalt. Það er að segja, það eru miklu meira fljótandi skilgreiningar á karlmennsku og kvenleika og fyrirbærin eru flóknari en talið var. Það þarf kannski ekki að koma á óvart.“
Ármann segir síbreytilegt hvað sé talið æskilegt þegar kemur að kyntjáningu. Iðnvæðingin hafi haft rík áhrif á stöðu kynjanna.
„Það er mikið talað um konur í fornsögum. Mikið meira en stundum er talað um þær í 20. aldar bókmenntum.“
Njála gagnrýnin á kynhlutverkin
Brennu-Njáls saga, ein þekktasta Íslendingasagan, er skrifuð á tólftu öld en sagan á aftur á móti að gerast fyrir um það bil þúsund árum. Það er því forvitnilegt að velta fyrir sér stöðu kynjanna í Njálu í samhengi við gröfina í Finnlandi þar sem gröfin er álíka gömul sögusviði bókarinnar. Í Njálu eru karlmenn hæddir fyrir kvenleika, kallaðir taðskegglingar ef þeim óx ekki skegg og svo mætti lengi telja.
„Í Njálu er þetta mjög flókið því þegar maður skoðar þetta alveg í kjölinn þá kemur í ljós að það eru allir karlar hæddir fyrir að vera kvenlegir. Í raun er það ekki þannig að heimurinn skiptist í karlmannlega karla og kvenlega karla, heldur er þetta fyrirbæri, að vera hæddur fyrir kvenleika, algilt. Í Njálu er gengið svo langt í að segja frá háði í garð karla að mér finnst ekki koma annað til greina en að sagan sé að draga þetta fram. Hún sé að vekja athygli á vandamálinu,“ segir Ármann.
„Niðurstaðan í Njálu hlýtur að vera sú að kröfur til karlmennskunnar séu mjög kúgandi fyrir karlmenn. Það er alls ekki þannig endilega að það sé hægt að lesa söguna sem heimild um ósveigjanlegan tíma heldur þvert á móti finnst mér megi lesa hana sem heimild um mjög líflega kynjaumræðu á þrettándu öld.“
Æsir með kynusla
Kynhlutverk í ásatrú voru sömuleiðis meira á reiki en framsetning þeirra í dag gefur tilefni til að ætla.
„Hið sama gildir um ýmsar goðsögurnar. Þar er hæðst að Þór fyrir að fara í kvengervi en um leið er alveg greinilegt að guðirnir eru alltaf að fara í kvengervi. Kynferði guðanna er miklu meira á reiki en maður gæti haldið. Þetta er sérstaklega áberandi í mynd Óðins sem er bæði kallaður alföður í Snorra-Eddu en á hinn bóginn í Heimskringlu, sem er kannski eftir sama höfund, er sagt að Óðinn hafi stundað seið. Í þessum seið hafi falist svo mikil ergi að aðeins gyðjurnar gátu stundað hann. Óðinn fer þar yfir kynjamörkin. Hann getur bæði verið helsti faðir guðanna en svo gerir hann líka það sem aðrir geta talið kvenlegt.“
Ármann segir að þegar fornleifar finnast liggi beint við að setja fundinn í samhengi við þær hugmyndir sem vitað er að voru uppi. Hins vegar sé það túlkunaratriði hvaða hugmyndir eru uppi um karlmennsku og kvenleika. Þær séu breytilegar og í grunninn samfélagslegar og þar með háðar tungumálinu.
Innslagið birtist fyrst í fréttaþættinum Hádegið á Rás 1. Hlustið á innslagið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.