Viðbúið er að farið verði að bjóða upp á bólusetningu barna allt niður í hálfs árs aldur eftir áramót, segir Valtýr Thors barnalæknir. Hann segir skynsamlegt að forða börnum frá veikindum og langtímaáhrifum covid.
Valtýr segir bólusetningu barna skynsamlega, bæði til að forða þeim frá veikindum og sálrænum áhrifum einangrunar sem smitaðir verða að fara í. Í Bandaríkjunum hafi níu milljónir barna verið bólusettar og nokkrar milljónir í Evrópu án aukaverkana sem mæli gegn bólusetningu barna. Hér stendur til að hefja bólusetningu eldri grunnskólabarna innan skamms. Valtýr mælir með slíkri bólusetningu og þó sérstaklega að foreldrar ræði við stálpuð börn sín um bólusetningu þar sem þau séu orðin nógu þroskuð til að hafa skoðun á henni.
Verið er að prófa bóluefnin og rannsaka virkni þeirra á börn undir tólf ára aldri.
„Ég held að það sé mjög líklegt að einhvern tímann eftir áramótin verði bóluefni markaðssett fyrir börn allt niður í sex mánaða. Þá á eftir að taka ákvörðun, og sóttvarnayfirvöld stýra því, hverja veljum við að bólusetja. Ég tel núna eins og áður að leiðin til að verja þjóðfélagið okkar sé að bólusetja sem flesta,“ sagði Valtýr í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.
Valtýr sagði að farnar væru að berast tilkynningar erlendis frá um veikindi barna og innlagnir á sjúkrahús vegna covid. „Það má alveg búast við því að slíkt komi upp hér á Íslandi fyrr eða síðar. Besta vörnin gegn því er bólusetningar. Einnig myndi það koma í veg fyrir langvarandi áhrif.“