Forstjóri Umhverfisstofnunar og formaður Loftslagsráðs segja að strax þurfi að grípa til aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum. Sá síðarnefndi segir mjög mikilvægt að valdhafar og stjórnvöld rísi upp og axli ábyrgð sem þau undirgöngust með Parísarsamkomulaginu. „Við erum ekki alveg komin á heljarþröm en það er mjög stutt í það.“
Skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsvána sem birt var í fyrradag sýnir að meginástæða loftslagsbreytinga er af mannavöldum og að ef ekki verður gripið til aðgerða nást markmið Parísarsamkomulagsins ekki.
„Við höfum enn þá tíma en hann er mjög takmarkaður,“ segir Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðs.
Nýlegar bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar yfir losun gróðurhúslofttegunda hér á landi í fyrra sýna að dregið hefur úr losun.
„En betur má ef duga skal og stundin er algerlega runnin upp. Og við eigum að hætta að vera einhvern veginn að rífast um það að loftslagsáhrifin séu af manna völdum. Það liggur bara fyrir og við þurfum að grípa til markvissra aðgerða og stíga bara örugg skref og stór,“ segir Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar.
Skýrslan er undirstaða fyrir þjóðir heims til að koma sér saman um ástandið og hve hratt þarf að draga úr því. Mörg ríki heims draga lappirnar, segir Halldór, en Ísland, Noregur og Evrópusambandið hafa þegar endurnýjað skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu.
„Við höfum aldrei séð þetta eins skýrt. Það eru ekki endilega nýjar upplýsingar að koma heldur er bara vissan miklu meiri. Og líka því miður að þá er mikið af því, sem var áður spáð, er núna að gerast fyrir augum okkar. Og við erum þegar í mjög miklu hættuástandi. Við erum ekki alveg komin fram á heljarþörm en það er mjög stutt í það,“ segir Halldór.
„Við þurfum ekkert fleiri alvarlegar áminningarnar; skógareldana, skriðuföll og annað slíkt, til að segja okkur það. Við erum að fá alvarlegar fréttir núna varðandi hafstraumana. Þannig að við þurfum virkilega að taka þetta alvarlega,“ segir Sigrún.
En hvað er til ráða? Númer eitt, tvö og þrjú er að hætta að nota kol, segir Halldór. Og líka að verða óháð jarðefnaeldsneyti. Engin þörf sé á því lengur. Hér á landi þarf meðal annars að hraða orkuskiptum í samgöngum, þungaflutningum og í sjávarútvegi.
„Það eiga ekki allir að þurfa að vera að hafa áhyggjur af þessu. Við höfum valdhafa og stjórnvöld og það er mjög mikilvægt að þau núna rísi upp og taki á sig þá ábyrgð sem þau tóku á sig fyrir okkar hönd í París. Það er svona að koma að uppgjörstímum í því,“ segir Halldór.