Plastúrgangur sem almenningur í Senegal safnar, endar sem hluti af veiðarfærum sem þróuð eru af íslensku fyrirtæki. Veiðarfærin þykja bæði hagkvæmari og umhverfisvænni en eldri gerðir.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að um ein milljón togbáta stundi veiðar víðs vegar um heiminn, flestir í Asíu og Afríku. Stór hluti þessara báta nota tréhlera, sem líkja má við vörubretti, til að opna trollin. Tréhlerarnir vinna miklar skemmdir á sjávarbotninum auk þess sem þeir veita mikið viðnám og stuðla þar af leiðandi að meiri brennslu á olíu.

Íslenska fyrirtækið Pólar hefur þróað toghlera úr plasti sem ætlað er að leysa af hólmi hina óhagkvæmu tréhlera. Þeim er bæði ætlað að lágmarka tjón á sjávarbotninum og lækka rekstrarkostnað.

Nýverið fékk fyrirtækið styrk frá utanríkisráðuneytinu til að taka þátt í þróunarverkefni í Senegal, þar sem hringrásarhagkerfið spilar lykilhlutverk.  „Í Senegal og víða í Afríku þá er almenningur að safna plasti. Þeir geta skilað plasti til fyrirtækjanna sem eru í endurvinnslu og fá greitt í peningum. Við erum í samstarfi við tvær konur í Dakar í Senegal og þær eru með endurvinnslu á plasti í dag og eru að leita sér að fleiri hlutum til að framleiða, ekki bara potta og pönnur heldur líka iðnaðarvörur, og þar komum við inn með þessa toghlera,“ segir Atli Már Jósafatsson, framkvæmdastjóri Pólar.

Fyrirtækið hefur nýtt sér hringrásarhagkerfið víðar. Þannig eru hlerarnir sem Borgarplast smíðar hér heima unnir úr plasti frá Danmörku, sem að hluta til kemur úr íslenskum fiskinetum. Þeir hlerar fara á markað í Norður-Evrópu. Á Spáni eru smíðaðir hlerar fyrir Mið- og Suður-Evrópu en Atli segir tækifærin liggja í Afríku og Asíu. „Við erum að búa til sams konar verkefni á Indlandi, einnig í Kína, og þegar við ljúkum okkar verki og komum af stað í Senegal þá eigum við örugglega líka eftir að flytja okkur á austurströndina.“