Júlímánuður í sumar var sá heitasti sem mælst hefur á þremur stöðum á landinu. Allir eru á Norður- og Austurlandi. Sérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að hitastig sé að hækka og þetta veður geti gefið vísbendingar um það sem koma skal.

Hlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga

Þrátt fyrir kaldan maímánuð og snjókomu á norðan- og austanverðu landinu um miðjan júní snerist veðrið alveg við þegar leið á sumarið.

Kristín Björg Ólafsdóttir sérfræðingur í veðurrannsóknum hjá Veðurstofu Íslands segir að meðal annars á Akureyri hafi mælst hlýjasti júlí þar frá upphafi mælinga. „Þar hafa mælingar verið í gangi frá 1881. Núna var mánaðarmeðalhitinn 14,3 gráður og eldra metið var 13,3 gráður frá 1933 þannig að það er bæting um heila gráðu,“ segir Kristín Björg.

14 gráðu meðalhiti hljómar kannski ekki mjög hár en hitamælingar eru gerðar allan sólarhringinn.

„Meðalhiti eins mánaðar á Íslandi hefur aldrei áður farið yfir 14 gráður. Núna gerist það alla vega á þremur veðurstöðvum; það er á Akureyri, Torfum í Eyjafirði og á Hallormsstað,“ segir Kristín Björg.

Sólskinsstundir hafa sömuleiðis aldrei mælst fleiri á Akureyri en í júlí.

Ferðamenn í sólarleit

Ferðamenn hafa verið mjög margir í sumar á Norður- og Austurlandi í leit að góðu veðri. Margt ferðafólk hefur t.d. lagt leið sína til Akureyrar í sumar og meðal annars hafa sundlaugin og ísbúðir bæjarins verið stútfullar.

Kristín Ása Sverrisdóttir, vakstjóri í Sundlaug Akureyrar, segir að mikið hafi verið að gera í sumar. „Meira en ég hef séð nokkurn tímann áður. Sérstaklega í júlí þegar góða veðrið er búið að vera. Um leið og sólin fer að koma þá byrjar fólk að koma sund,“ segir Kristín Ása.

Í ísbúðinni Brynju er yfirleitt mikil örtröð, sér í lagi á góðviðrisdögum. 
María Mist Tómasdóttir, starfsmaður í ísbúðinni, segir að salan hafi verið einstaklega mikil í sumar. „Við erum búin að fá fullt, fullt af fólki. Og röð á nánast hverjum degi. Það er aðeins þó farið að róast núna en það var mest að gera um verslunarmannahelgina,“ segir María Mist.

Breytingar á veðri til frambúðar.

Þrátt fyrir að ákveðin gleði hafi fylgt þessum góðu sumardögum þá má líka velta fyrir sér hvort loftslagsbreytingar kunni að spila þarna inn í. Kristín Björg hjá Veðurstofu Íslands telur að þetta gæti verið ein birtingarmynd þeirra breytinga. „Það er þó erfitt að draga ályktanir af einum mánuði eða einum degi eða einu meti, þannig að við verðum bara að bíða og sjá.“

Þessar breytingar hafi verið að gerast smám saman undanfarna tvo áratugi. „Sumurin núna á 21. öldinni hafa öll verið fremur hlý og mörg þau eru hátt á metalistanum sem hlýir mánuðir þannig að við megum alveg búast við þessu áfram,“ segir Kristín Björg að lokum.