Mannmergð er nú í Flugsstöð Leifs Eiríkssonar, en fólk á leið til landsins þarf að bíða drykklanga stund til að framvísa bólusetningarvottorðum eða fara í sýnatöku, sé það óbólusett.
Viðmælendur fréttastofu, sem eiga það sammerkt að bíða eftir ferðamönnum – ástvinum eða viðskiptavinum – segja að nokkrar klukkustundir taki frá því vél lendir og þar til fólks kemst út úr flugstöðvarbyggingunni.
Á meðfylgjandi myndskeiði, sem fréttastofa fékk sent, sést ástandið vel. Flöskuhálsinn er við töskubeltin, en vottorðamóttöku hefur verið komið fyrir við útganginn þar sem tollurinn er venjulega.
Anna Björnsdóttir, sem bíður eftir dóttur sinni úr Danmerkurflugi, sendi fréttastofu myndbandið en hún segist hugsi yfir því að skipulagið sé ekki betra. Hvergi sé fólk í meiri hættu á að smitast af covid en þarna.
Sýnataka er á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en vottorðaeftirlit í höndum flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum.