Lögreglan handtók konu við Suðurlandsbraut í morgun þar sem bólusetningar þungaðra kvenna hófust klukkan níu. Konan var með mikil læti og mótmælti bólusetningunum, veittist að heilbrigðisstarfsfólki og lét öllum illum látum. Konunum sem voru að mæta í bólusetningu var verulega brugðið. Konunni var sleppt úr haldi laust fyrir hádegi.

Konan mætti, ásamt annarri, við Suðurlandsbraut í morgun um svipað leyti og fyrsti bólusetningarhópurinn. Ekki leið á löngu þar til hún byrjaði að öskra og veitast að heilbrigðisstarfsfólki Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þegar reynt var að hafa hemil á henni. Konan lét í ljós, með hávaða og öskrum, þá skoðun sína að bólusetningarnar væru mjög skaðlegar, sakaði stjórnvöld um morð og að verið væri að sprauta eitri en ekki bóluefnum í fólk. 

Konunum verulega brugðið

Þeim barnshafandi konum sem voru á svæðinu var verulega brugðið og sumar grétu. Lögregla var kölluð til og var hún komin á svæðið innan tíðar. Félagi konunnar hélt sig til hlés, en sú mótmælandi var handtekin og færð á lögreglustöð. 

Þeir Arnar Björnsson fréttamaður og Grímur Jón Sigurðsson myndatökumaður voru á svæðinu að ræða við konurnar sem voru á leið í bólusetningu þegar atvikið átti sér stað. 

Uppfært klukkan 12:00: Konunni var sleppt úr haldi lögreglu klukkan 11:46. Samkvæmt upplýsingum þaðan fór mestur tími í að reyna að fá hana til að segja til nafns, en þegar það varð svo ljóst var rætt við hana og henni sleppt. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhaldið, en konan verður þá boðuð til formlegrar skýrslutöku ef kæra verður gefin út.