Sóttvarnalæknir segist ekki leggja til jafn harðar aðgerðir og áður. Það megi þakka bólusetningum en hann telur að smit geti verið útbreiddara en vitað sé. Hann segir vonbrigði að þurfa að grípa til aðgerða nú.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveðst ekki leggja til jafn harðar aðgerðir og áður en þær séu þó fullkomlega réttlætanlegar í ljósi stöðunnar. Hann tjáir sig ekki um efni minnisblaðs síns að svo stöddu, ekki frekar en áður þegar hann hefur skilað minnisblaði til heilbrigðisráðherra. 

„Þetta er ekki bundið við eitt svæði heldur er þetta hér og þar. Þannig að það er mjög líklegt að útbreiðslan sé meiri en við erum að sjá í sýnatökunum.
Ég held að það sé nokkuð ljóst að við þurfum ekki að leggja til eins harðar aðgerðir og áður. Ég minni á að ef bólusetningin hefði ekki verið svona útbreidd þá væri ég kominn fyrir löngu með tillögur um miklu harðari aðgerðir,“ segir Þórólfur.

Hann segir að tilmæli til barnshafandi kvenna séu þau að fara ekki í bólusetningu ef þær eru fullfrískar og ekki með undirliggjandi sjúkdóma. Þórólfur segir vonbrigði að þurfa að leggja til aðgerðir nú. Hann vonast þó til að bólusetning verji flesta fyrir alvarlegum einkennum. 
„Það er bara þessi vöxtur sem við erum að sjá, að þetta er bara hraðari vöxtur en við sáum jafnvel í hinum bylgjunum. Þannig að það eru vissulega vonbrigði.“ segir Þórólfur.

Viðtal við Þórólf í heild sinni að loknum upplýsingafundi í morgun má sjá hér fyrir ofan.