Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að fjórða bylgja Covid-19 faraldursins sé hafin hér á landi. 38 manns greindust innanlands í gær og nokkur hundruð eru í sóttkví.

Tölur dagsins í dag varðandi smitgreiningar innanlands eru með því móti sem ekki hefur sést í marga mánuði hér á landi. Þórólfur býst við að veiran sem búin er að dreifa sér um samfélagið að þessu sinni sé hið illræmda Delta-afbrigði.

„Líklega er þetta Delta-afbrigðið sem við erum að sjá núna, þó við séum ekki komin með endanlega raðgreiningu. Það er fullbólusett fólk að smitast og við erum að sjá töluvert mikið af sýkingum undanfarna daga og mikinn vöxt frá degi til dags. Það er áhyggjuefni,“ sagði Þórólfur í Síðdegisútvarpi Rásar 2.

Þórólfur segir þá staðreynd að tala megi um nýja bylgju í sjálfu sér ekki breyta neinu varðandi nálgunina. Hins vegar geti staðan breyst með nýjum afbrigðum veirunnar og viðbrögð við henni í stöðugri endurskoðun. Bóluefnin er að sögn Þórólfs ekki eins virk í að koma í veg fyrir smit af völdum Delta afbrigðisins eins og gegn öðrum afbrigðum. Hann viðurkenni að það séu honum vonbrigði.

„Ég verð bara að játa það að auðvitað eru það vonbrigði að bóluefnin skuli ekki vernda betur gegn smiti. Í upphaflegu rannsóknunum var talað um að virknin til að koma í veg fyrir smit væri 80-90% eftir fulla bólusetningu. Auðvitað vonaði maður að það myndi virka líka gegn öllum öðrum afbrigðum, en svo kemur bara í ljós að Delta-afbrigðið er aðeins erfiðara viðfangs.“