Bólusett fólk þarf að framvísa neikvæðu COVID-prófi við komuna til landsins, samkvæmt nýjum reglum sem ræddar voru á ríkisstjórnarfundi í hádeginu. Þetta er ákveðið í ljósi fjölgunar smita að undanförnu. Flest smitin eru af delta-afbrigðinu.

Á fundinum lagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fram minnisblað Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, sem ekki gat verið viðstödd fundinn. Fólk getur annað hvort framvísað PCR-prófi eða hraðprófi og taka nýju reglurnar gildi 26. júlí, á mánudag í næstu viku. COVID-prófin skuli ekki vera eldri en 72 tíma gömul.

Sömu reglur verða áfram í gildi um óbólusetta, að fara í skimun á flugvelli, í fimm daga sóttkví og svo í skimun. 

„Síðan verða það almenn tilmæli að þau sem eru búsett hér á landi og eru með tengslanet að þau fari einnig í skimun innan 24 tíma frá heimkomu,“ sagði forsætisráðherra í viðtali við Magnús Geir Eyjólfsson, fréttamann í hádeginu. 

Var einhugur um þessar breytingar? „Það var auðvitað ýmissa spurninga spurt við ríkisstjórnarborðið enda er þetta töluverð breyting,“ segir Katrín. Hún telur aðgerðirnar þó mjög mildar til að bregðast við fjölgun smita. „Við  erum ekki að sjá alvarleg veikindi og þess vegna er ekki verið að leggja til harðari aðgerðir en við vitum líka að það sem hefur komið okkur vel hér á landi er að eiga þetta virka samtal stjórnmálanna og vísindamanna og byggja okkar aðgerðir á gögnum og við erum að sjá töluvert mikla fjölgun á smitum í hópi bólusettra.“

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, skilaði nýlega minnisblaði um hertar aðgerðir til heilbrigðisráðherra. Forsætisráðherra segir að sóttvarnalæknir hafi lagt til framvísun á neikvæðu prófi og eins að skylda allar íslenskar kennitölur í skimun innan 24 tíma frá komu til landsins. „Það teljum við að standist ekki jafnræðisreglu þannig að heilbrigðisráðherra gerir það að tilmælum,“ segir Katrín.

Sóttvarnalæknir hefur ekki lagt fram tillögur um hertar aðgerðir innanlands og slíkt var ekki rætt á ríkisstjórnarfundinum í hádeginu. Börn fædd 2005 eða síðar verða áfram undanþegin öllum aðgerðum á landamærum, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.