Misskipting er að aukast á meðal refa í friðlandinu á Hornströndum að sögn Esterar Rutar Unnsteinsdóttur spendýravistfræðings. Ester var gestur Morgunvaktarinnar á Rás1 í morgun. Almennt sé ástandið gott í refastofninum.

Ester hefur nú nýlokið tæpri þriggja vikna rannsóknarferð á Hornstrandir þar sem aðstæður refastofnsins voru kannaðar. 

„Það eru nokkur pör sem eiga gott óðal og þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu á meðan önnur höfðu það skítt. Þeirra svæði liggja á landamærum óðala og lifa við mikla truflun af öðrum refum sem fara þar um og ferðamönnum.“ Ester sagði mikinn mun á heilsu yrðlinga. Þeir yrðlingar sem byggju í góðum óðulum séu stærri og jafnvel hættir á spena á meðan að hinir væru ekki komnir jafn langt.

Ester sagði refastofninn hér á landi telja í kringum 9.000 til 10.000 refi. Hún segir refastofninn innan friðlandsins ekki hafa stækkað síðan að refir voru friðaðir. Almennt sé stöðugleiki innan friðlandsins en meiri sveiflur annarstaðar á landinu.

„Það sem er svo merkilegt er að ég hef skoðað stofninn á landsvísu og þar hafði orðið mikil fjölgun frá sögulegu lágmarki og sérstaklega eftir 1996,1997. Ég hef líka tekið saman gögn frá friðlandi Hornstranda og það virðist ekki hafa fjölgað þar eftir að refurinn var friðaður. Þá eru það í rauninni bara náttúrulegir ferlar sem hafa áhrif og takmarka stofninn. Það er bara pláss fyrir ákveðið marga,“ sagði Ester og nefndi einna helst veturinn sem takmarkandi þátt.