Rúmlega helmingur svarenda í nýjum þjóðarpúlsi Gallup segist vilja breytingar á stjórnarskrá Íslands í samræmi við tillögur Stjórnlagaráðs. Talsverður munur er á afstöðu fólks eftir stjórnmálaskoðunum.

Nú í sumar eru liðin tíu ár síðan stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum að nýrri stjórnarskrá til forseta Alþingis. Í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 kusu 64 prósent að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi um nýja stjórnarskrá. Síðan þá hefur málið verið þrætuepli innan og utan þingsins. Til stóð að afgreiða fjögur frumvörp um stjórnarskrárbreytingar á liðnu þingi en þau komust ekki til meðferðar á þessu kjörtímabili.

Umræðan fór hátt síðastliðið haust þegar listaverk við Atvinnuvegaráðuneytið var afmáð, en í því var spurt um nýja stjórnarskrá. Rekstrarfélag Stjórnarráðsins fyrirskipaði að verkið skyldi fjarlægt. Svo fór að verkið var endurgert á svipuðum stað og stendur enn. 

53 prósent svarenda í þjóðarpúlsi Gallup segjast vilja breytingar á stjórnarskrá í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. 18 prósent segjast vilja breytingar, en ekki þær sem stjórnlagaráð lagði til. 13 prósent svarenda vilja ekki gera neinar breytingar á stjórnarskránni.
16 prósent  segja engan af fyrrnefndum kostum samræmast skoðunum þeirra. Ríflega 22 prósent tóku ekki afstöðu.

Stuðningur við stjórnarskrárbreytingar er mestur meðal þeirra sem styðja Samfylkinguna og Pírata, en minnstur meðal þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn. Stuðningur við óbreytta stjórnarskrá er mestur meðal kjósenda Miðflokks.  

Konur eru sjónarmun hlynntari stjórnarskrárbreytingum en karlar, og yngra fólk er hlynntara breytingum en þeir sem eldri eru. 56 prósent þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu segjast hlynntir stjórnarskrárbreytingum en 46 prósent þeirra sem búa á landsbyggðinni segjast hlynntir tillögum stjórnlagaráðs. 

Misjafnt er hversu vel svarendur þekkja innihald núverandi stjórnarskrár, og tillögur stjórnlagaráðs. Þrír af hverjum tíu segjast þekkja núverandi stjórnarskrá vel, rúmur þriðjungur illa og þriðjungur hvorki né. 
Nær 36 prósent segjast þekkja vel til tillagna stjórnlagaráðs, þriðjungur segist þekkja þær illa og rúm 31 prósent svarenda hvorki vel né illa. 
 

Könnunin var netkönnun og var gerð dagana 18. til 28. júní. Þátttökuhlutfall var 53,3%, úrtaksstærð 1.626 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.

None