Fríverslunarsamningur Íslands og Bretlands verður undirritaður í Lundúnum í dag. Samningurinn tekur við af bráðabirgðasamningi sem tók gildi eftir að Bretar gengu úr Evrópusambandinu.Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, er staddur í Lundúnum og skýrði samninginn frekar og merkingu hans fyrir Ísland í hádegisfréttum í dag.
Tryggir þessi samningur sama aðgengi að mörkuðum í Bretlandi líkt og var áður en Bretar gengu úr Evrópusambandinu?
„Já, við erum hér að tryggja okkar viðskiptahagsmuni sem er auðvitað griðarlega mikilvægt . Við vorum með bráðabirgðasamning eins og við vitum en bráðabirgðasamningur er, eins og nafnið gefur til kynna, einungis til bráðabirgða. Núna erum við búin að tryggja okkar hagsmuni sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt því Bretland er næstmikilvægasta viðskiptalandið, “ segir Guðlaugur Þór.
„Hér er ekki um neinn endapunkt að ræða“
Þá hafa samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lýst yfir vonbrigðum með samninginn og telja hann breyta litlu fyrir Ísland. Guðlaugur Þór segir okkur enn í þeirri stöðu að geta bætt við þegar kemur að viðskiptum á milli Bretlands og Íslands.
„Hér er ekki um neinn endapunkt að ræða. En það' er hins vegar ánægjulegt ef að fólk er að sjá mikilvægi þess að efla og styrkja okkar verslunarnet og auka aðgengi okkar að erlendum mörkuðum. Það er nokkuð sem ég hef talað fyrir, “ segir Guðlaugur Þór. Hann bætir jafnframt við að málið hafi snúist um að klára það sem snýr að okkar hagsmunum, það hafi tekist og því hljóti það að vera fagnaðarefni.