Símamótið, stærsta íþróttamót barna sem haldið hefur verið hér á landi, var sett á Kópavogsvelli í kvöld. Þar etja kappi næstu daga ungar knattspyrnukonur í yfir 400 liðum frá 49 félögum.

Hingað til hafa stelpur úr 5.,6. og 7. flokki keppt á Símamótinu og í ár bættist 8. flokkur við. Jóhann Þór Jónsson mótsstjóri Símamótsins segir að samtals spili um 420 lið á mótinu. „Það verða spilaðir að mér sýnist 1.635 leikir alla helgina. Þátttakendur eru yfir 3.000 skráðir þannig að þetta gerir það að þetta er stærsta ungmennafélagsmót sem haldið hefur verið á Íslandi til þessa,“ segir Jóhann.

Nokkrar ungar knattspyrnukonur úr 6. flokki Knattspyrnufélagi Rangæinga sem voru að koma sér fyrir á tjaldsvæðinu á Kópavogstúni í dag voru ekki í vafa um í hvaða tilgangi þær væru mættar. „Vinna,“ sagði Emilía Ösp Hjálmarsdóttir. Vinna hverja? „Vinna bara mótið.“ Eigið þið mikla möguleika á því? „Já og nei, veit það ekki.“

Sara Kristín Lárusdóttir sagðist hafa æft sig vel fyrir mótið.  Hvað æfir þú oft í viku? „Ég veit það ekki, ég bara æfi mig stundum með að skjóta í vegg.“

Mótsstjórn Símamótsins hvetur félögin til að leggja niður númeraröðun liðanna eftir getu og nefna liðin í staðinn eftir íslenskum knattspyrnukonum. „Auðvitað er einhver styrkleikaröðun í gangi, það vita það allir, en við viljum beina því til félaganna að þau frekar skíri liðin eftir fyrirmyndum stelpnanna og þá meistaraflokksstelpurnar í þeirra liði hvort sem það er Valur, KR, Breiðablik eða eitthvað annað,“ segir Jóhann. „Eða landsliðsstelpurnar, það er bara frjálst val.“

Og lið stelpnanna í 6. flokki Knattspyrnufélags Rangæinga heitir einmitt eftir knattspyrnukonu. „Liðið okkar heitir Hólmfríður Magnúsdóttir,“ segir Svala Ingibjörg Guðmundsdóttir.  Af hverju? „Út af því að hún var í KFR.“

Og rétt fyrir klukkan hálf átta voru stelpurnar að raða sér upp í skrúðgöngu sem átti að leggja af stað frá Smárahvammsvelli. Eftir að hafa gengið hana var mótið sett og í kjölfarið hófst fótboltaveisla sem stendur fram á sunnudag.

Þar voru fimm stelpur úr 6. flokki Breiðabliks þær Sóley María Jóhannsdóttir, Katrín Lára Hlynsdóttir, Sara Mist Orradóttir, Emilía Ólöf Jónsdóttir og Brynja Sjöfn Ólafsdóttir Þær skírðu liðið sitt eftir knattspyrnukonunni Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur sem var uppalin í Breiðabliki.  Þær hafa æft vel fyrir mótið og segja að markmið þeirra sé að hafa gaman.