„Ég var ekki búinn að gefa upp vonina um að finnast, en ég var ekki viss um að myndi finnast á lífi,“ segir bandarískur ferðamaður sem fannst eftir umfangsmikla leit á Reykjanesi síðustu helgi. Hann segist hafa verið á síðustu metrunum þegar leitarfólkið birtist. Ekki hefði mátt tæpara standa.

Í lok júní fylgdist þjóðin með leitinni að Scott Estill, bandarískum ferðamanni sem varð viðskila við konu sína við gosstöðvarnar við Fagradaglsfjall. Þrjú hundruð manns leituðu að honum fótgangandi, á fjórhjólum, bílum, með leitarhundum og á þyrlum. Hann fannst vestan við Núpshlíðarháls í um fjögurra kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem leiðir skildi. Hann er nú komin heim í faðm fjölskyldunnar og er á batavegi.

Rotaðist og vaknaði í svartaþoku

Scott og Becky kona hans voru í ferðalagi á Íslandi að halda upp á 35 ára brúðkaupsafmælið sitt. Þau eru vant göngufólk en vegna veðurs ákvað Becky að fara á undan honum aftur í bílinn eftir að þau gengu upp Fagradalsfjall til að skoða gosið. Þá fór að halla undan fæti hjá Scott.

„Mér skikaði fótur og ég lenti með höfuðið á stein og rotaðist. Ég veit ekki hversu lengi ég var meðvitundarlaus en ég vaknaði í svartaþoku og sá ekki neitt. Veðrið hafði gjörbreyst. Ég vissi ekki hvar ég var, endaði á að ganga í kolranga átt og var bara alveg týndur,“ segir hann. 

Örmagna og nýrun farin að gefa sig

Scott var týndur í rúman sólarhrinf og var afar illa á sig kominn, örmagna með vökvaskort og nýrun farin að gefa sig. 

„Þegar ég reyndi að standa upp þá datt ég bara niður. Á þessum tímapunkti var ég ekki búinn að gefa upp vonina um að finnast. En ég vissi ekki hvort ég myndi finnast á lífi,“ segir hann. 

Sá leitarþyrlur á sveimi fyrir ofan sig

Scott hafði orðið var við að það væri verið að leita að honum. Hann sá þyrlur á sveimi rétt fyrir ofan sig. 

„Ég stóð upp og veifaði og öskraði. Ég sá þá en þeir sáu mig ekki. Og að sjá þá fljúga hjá, ég hugsaði bara að ég vissi ekki hvort ég fengi fleiri tækifæri.“

Scott segist hafa verið á síðustu metrunum þegar hann hafði verið týndur í nærri 30 klukkustundir. Hann var mjög vankaður þegar var í raun farinn að búa sig undir að deyja þegar björgunarsveitarfólkið birtist.

„Þetta var fallegasta sjón sem ég hef séð,“ segir hann. 

Væri ekki hér ef leit hefði verið hætt klukkutíma fyrr

Scott segist ætla að koma aftur til Íslands með fjölskyldu sinni um leið og tækifæri gefst. Hann er afar þakklátur fyrir lífgjöfina.

„Hefði leitarfólkið gefist upp klukkutíma fyrr væri ég ekki hér. Að segja að ég eigi björgunarfólkinu líf mitt að launa er vanmat. Og hugulsemin og stuðningurinn sem ég hef fengið frá Íslendingum er eitthvað sem ég gleymi aldrei.“