Frá heimabæ sínum Tálknafirði á Bjarni Snæbjörnsson ljúfar minningar en líka erfiðar. Hann var sem barn lagður í einelti og kallaður hommi og strákastelpa. Bjarni taldi að bænum væri í nöp við sig, en komst að því að eigin sjálfshatur væri það sem hann þyrfti að yfirstíga. Hann segir frá ferðalaginu í nýjum söngleik.

Bjarni Snæbjörnsson leikari, söngvari, athafnastjóri og skemmtikraftur hefur upp á síðkastið unnið að nýjum einleik; söngleiknum Góðan daginn, faggi. Verkið verður frumsýnt á Hinsegin dögum í Þjóðleikhúskjallaranum er forsýnt næstu helgi á Tálknafirði. Sýningin er hluti af Menningarhátíð Café Dunhaga þar í bæ. Sjálfur er Bjarni alinn upp á Tálknafirði þar sem hann var lagður í einelti en fann líka fyrir ómældum kærleika og stuðningi. Bjarni kíkti í Lestina og sagði frá sýningunni og tilurð hennar. Meðhöfundur og leikstjóri sýningarinnar er Gréta Kristín Ómarsdóttir.

„Ég er faggi“

Um nafngiftina segir Bjarni: „Ég er faggi. Þetta er orðagrín sem við vinkona mín sem er hinsegin, og ég sem er hommi, byrjuðum að grínast með fyrir mörgum árum síðan. Við köllum okkur #faggarnir og leikum okkur að því.“ Orðið segir hann að sé enn notað í neikvæðri merkingu, til dæmis á meðal barna, og það sé orðið hommi einnig. „Við erum að ná orðinu til okkar og endurforrita í hugum okkar tenginguna við þetta orð, og vonandi í huga annarra líka.“

Rifjar upp bréf sem hann skrifaði foreldrum sínum

Söngleikurinn fjallar um Bjarna sem segir hann vera ævisögulegan að öllu leyti. Hann byggist á dagbókarfærslum og bréfum sem honum hafa borist og hann hefur sent í gegnum tíðina. „Ég lá á þessu gulli í mörg ár og einhverra hluta vegna prentaði ég líka út email þegar það var að byrja um árið 2000,“ segir Bjarni. „Það voru samskipti við móður mína, þegar ég var að koma úr skápnum, og foreldra mína.“

Sjálfur elskar hann söngleiki og lýsir sjálfum sér sem söngleikjanördi. Hann hefur lært söng og tekið þátt í fjölda söngleikja áður. „Það er hægt að segja hluti öðruvísi en með meiri dýpt, og ná öðruvísi til fólks, í gegnum tónlist og söng.“

Kærleikur en líka mikill sársauki

Hann segir að ferlið hafi verið ótrúlegt og gefandi, en sjálfsskoðunin á köflum erfið og jafnvel óbærileg. Hann hafi þó fundið mikinn stuðning og samkennd sem hinsegin einstaklingur í gagnkynhneigðu samfélagi; mikinn kærleik en líka mikinn sársauka. „Þetta hefur verið allt í einu, kvíði og spenna.“

Tilfinningarnar sem opinberaðar eru í verkinu eru ekki alltaf auðveldar að rifja upp, stundum hefur hann þurft að taka pásu þegar þær bera hann ofurliði, „en þegar til kastanna kemur þá þarf ég að geta sýnt þessa sýningu og vera búinn með það. Ég þarf að segja þessa sögu án þess að láta hana taka vald yfir mér,“ segir hann. „Það mikilvæga í þessu er hvað ég er að segja og af hverju ég er að gera það.“

Lífið er ekki Instagram

Þegar Bjarni er spurður að því hvernig það sé að berskjalda sig og fortíð sína fyrir framan áhorfendur skellir hann upp úr. „Þegar þú segir þetta svona, þetta er svo galið. Ó mæ gad, nú fæ ég bara hysteríukast,“ segir hann og bætir við að á meðan þetta sé galið, sé það mikilvægt. „Við þurfum að heyra svona sögur og gera okkur grein fyrir því að flest okkar fara ekki í gegnum lífið beinan og breiðan veg. Það að berskjalda sig svona og opinbera sársauka sinn, gleðina og sigrana, það er mikilvægt því lífið er ekki Instagram.“

Fyrir hinsegin ungmenni

Bjarni bendir á að mannlegri tilveru fylgi sársauki. „Það er sársauki í því að passa ekki inn sem ungur einstaklingur, sem ungmenni. Þetta er saga og tækifæri persónulega fyrir mig til að gefa mér plássið og að ég taki bara bókstaflega sviðið og segi frá mér, fyrir alla hina.“

Honum þykir mikilvægt að aðrir geti speglað sig í sögu hans og fundið í henni samsvörun og stuðning. „Það er það sem ég er með í fókus, sérstaklega fyrir hinsegin fólk, ungt fólk, börn og þau sem eru ekki einu sinni fædd og eru hinsegin. Við þurfum að sá pínulitlu fræi hjá áhorfendum um hvernig raunveruleikinn er. Þess vegna er þetta mikilvægt.“

Dásamlegar og ekki góðar minningar

Bjarni er sem fyrr segir alinn upp á Tálknafirði þar sem sýningin verður forsýnd, og þar bjó hann þar til hann varð unglingur. Þá flutti hann burt til að fara í framhaldsskóla, en heimsótti heimahagana áfram á sumrin. Tálknafjörður tekur því mikið pláss í verkinu. „Þaðan á ég dásamlega minningar og líka ekki góðar minningar. Ég var alltaf aðeins á skjön.“ Honum þyki afar vænt um bæinn í dag. Bróðir hans býr þar enn og Bjarni heimsækir hann oft, og annað vinafólk á staðnum. „Ég á svo góða tengingu við fólkið, þau styðja mig í öllu sem ég hef gert og það er aðallega forsendan sem þessi bær er fyrir mig í verkinu.“

Hann var á tímabili lagður í einelti, honum var strítt og hann kallaður hommi og stelpustrákur. „En þó ég hafi lent í einelti sem barn í grunnskólanum þá var alltaf einhver kjarnasamheldni og kærleikur sem ég hef fundið fyrir, sérstaklega bæði áður en ég kem út og eftir á. Fólk hefur sýnt mér ómældan stuðning.“

Gaf sér að bærinn hataði sig

Það voru fyrst og fremst innri fordómar Bjarna sjálfs sem hann þurfti að horfast í augu við. „Ég speglaði þá á bæinn og gaf bænum það að hann hataði mig, á meðan það var ég sem hataði mig,“ segir hann.

Bjarni hlakkar mikið til að koma til Tálknafjarðar og segja þeim sögu sína, og spjalla svo við heimafólk í umræðum að sýningunni lokinni. „Það er hluti af sköpunarferlinu að loka þessum hring í þessu verki. Að við skiljum betur hvað það er sem þetta bæjurfélag stendur fyrir í verkinu og fyrir mig persónulega líka.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Bjarna Snæbjörnsson í Lestinni á Rás 1.