Það eru vonbrigði að ekki verði reynt að verja Suðurstrandarveg gegn hraunrennsli, sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í Kastljósi í kvöld. „Því hann er mjög mikilvægur fyrir okkur í Grindavík og reyndar Suðurnesin öll. Það var reynt að finna leiðir og það var búið að hanna mannvirki en það var ekki talið fært að ráðast í þá miklu framkvæmd, bæði var hún dýr og svo var ekki víst að það tækist einu sinni að verja Ísólfsskála og Suðurstrandarveg, þannig að frá því var horfið.“
Almannavarnir hafa ákveðið að reyna ekki að hindra hraunflæði yfir Suðurstrandarveg því meiri hagsmunir eru undir ef hraun fer að renna niður í Nátthagakrika til vesturs og norðurs. Þá er Grindavíkurbær fyrstur í hættu, svo Vogar og svo Svartsengi.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur og Ari Guðmundsson hjá Verkís, sem hefur yfirumsjón með því að hanna varnargarða og aðrar ráðstafanir í kringum hraunrennsli, voru gestir Einars Þorsteinssonar í Kastljósi kvöldsins.
Á myndinni hér að neðan má sjá Suðurstrandarveg og Ísólfsskála, svæði sem búast má við að verði fljótlega undir hrauni.
Gera má ráð fyrir að hraunið renni út úr Nátthaga, að veginum og þaðan til sjávar. Hraun úr Nátthagakrika færi svipaða leið, segir Ari. Reynt hefur verið að koma í veg fyrir að hraun komist í Nátthagakrika enda á það þaðan greiðari leið í átt að Grindavík og Vogum. Til þess hefur verið byggður stærðarinnar leiðigarður.
Ari segir varnaraðgerðir til að koma í veg fyrir hraunrennsli í Nátthagakrika mjög mikilvægar. „Við höfum lagt mikið í að styrkja þennan leiðigarð. Við byrjuðum á honum rétt fyrir rúmri viku og það mátti ekki vera tæpara,“ segir hann. Ekki sé gott að segja til um það hversu lengi garðurinn haldist. Á myndinni hér að ofan má sjá hraunflæðispá til langs tíma og í þættinum í kvöld, sem má sjá í spilaranum hér að ofan, útskýrði Ari að hverju varnarráðstafanir beinast helst um þessar mundir.