Samherji hefur samið við HS Orku um uppbyggingu á allt að 40 þúsund tonna laxeldi á landi við Reykjanesvirkjun. Framkvæmdin kostar um 45 milljarða króna.
Landeldisstöðin verður í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun, þar sem fyrirtæki njóta góðs af starfsemi virkjunarinnar. „Í auðlindagarðinum erum við að fá strauma frá HS Orku sem eru affallsstraumar frá orkuverinu, til dæmis ylsjó sem er stór forsenda þess að þetta er hægt á þessum stað í þessum skala,“ segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri fiskeldis hjá Samherja.
Samkvæmt áætlunum hefst seiðaeldi við fyrsta áfanga í upphafi árs 2023 og áframeldi og vinnsla á afurðum á árunum 2024 og 2025, en alls er áætlað að byggja upp allt að 40 þúsund tonna landeldi á laxi í þremur áföngum.
„Við áætlum að það verði um hundrað manns sem vinni annars vegar beint við eldið og hins vegar beint við vinnsluafurðina og svo er auðvitað fjöldi manns sem starfar á framkvæmdatíma við að byggja þetta upp,“ segir Jón.
Heildarkostnaður við verkefnið er um 45 milljarðar króna en gert er ráð fyrir að landeldið verði komið i full afköst árið 2032. „Þetta veltur mjög mikið á hvernig okkur gengur í leyfisferlinu sem er stærsti óvissuþátturinn á næstu mánuðum. Við erum að vona að við getum klárað það á ári og munum setja það í gang núna strax að kynna frummatsskýrsluna okkar. Þegar við erum komnir með það þá byrjum við að grafa,“ segir Jón.