Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á atvinnumál og innviðauppbyggingu fyrir komandi kosningar. Formaður flokksins sér fyrir sér áframhaldandi stjórnarsamstarf núverandi ríkisstjórnar.
Miðstjórn Framsóknarflokksins kom saman í dag á Hotel Nordica í Reykjavík til að leggja línur fyrir komandi kosningar í haust. Í setningarræðu sinni lagði Sigurður Ingi Jóhannsson áherslu á atvinnumál fyrir komandi kosningar.
„Við höfum verið að leggja áherslu á fjölskylduna, fjárfesta í fólki, halda áfram innviðafjárfestingunni sem hefur gengið vel og mikil þörf er á áfram. Skapa störf, það eru verkefnin sem við viljum horfa til.“ segir Sigurður.
Framsóknarflokkurinn á þrjá ráðherra í núverandi ríkisstjórn. Sigurður sér fyrir sér sama ríkisstjórnarsamstarf að loknum kosningum.
„Við höfum sagt að þetta hefur gengið vel, afköstin hafa verið mikil hjá þessari ríkisstjórn, samstarfið gengið ágætlega. Ef niðurstaðan verður þannig, sem skoðanakannanir benda til núna, að við höfum meirihluta, þá held ég að við munum skoða þann möguleika, ekki síður en aðra.“
Skiptir máli hversu stór þessi meirihluti er?
„Já án efa og svo auðvitað hitt hvort að við náðum saman um nýjan stjórnarsáttmála. Við náðum auðvitað saman um ákveðna uppbyggingu sem hefur gengið vel en á næsta kjörtímabili eru aðrar áskoranir.
Nú hyllir undir þinglok. Hefði Sigurður Ingi viljað sjá einhver mál afgreidd á þingi sem ekki náðu í gegn?
„Já já, það er auðvitað fullt af málum sem einstaka ráðherrar, og þ.á.m. sá sem hér stendur hefðu gjarnan viljað að yrðu kláruð, voru langt komin og búin að fá mikla vinnu en heilt yfir, í ljósi þess að þetta er síðasti þingvetur og við erum með covid yfir okkur þá geng ég sáttur frá borði.