Hlutabótaleiðin sem hefur verið í boði frá því í mars í fyrra rann sitt skeið um síðustu mánaðamót. Rúmlega 36.500 launamenn nýttu sér úrræðið og yfir 6.700 fyrirtæki. Heildarbætur sem voru greiddar námu tæpum 28 milljörðum króna
Heimsfaraldri lýst yfir
Óveðurskýin hrönnuðust upp í byrjun árs í fyrra. Atvinnuleysi hafði aðeins aukist í lok ársins 2019 sem mátti rekja meðal annars til falls WOW air. Var í október það ár 3,8%. Mjakaðist upp á við og var komið í 5% í febrúar í fyrra. Engin vissi hvað var í vændum. Kórónuveiran var byrjuð að breiðast út. 11. mars lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin yfir heimsfaraldri.
Atvinnuleysið jókst
Atvinnuleysið hér á landi jókst í marsmánuði vegna þess að það þrengdi að í ferðaþjónustunni. Heildaratvinnuleysi mældist 9,2%. Almennt atvinnuleysi í mars var komið í tæp sex prósent og 3,5% atvinnuleysi vegna þeirra sem voru komnir í minnkað starfshlutfall, byrjað var að nýta hlutabótaleiðina. 13. mars var lagt fram frumvarp um hlutabætur og lög samþykkt viku síðar. Þau kváðu á um að atvinnurekendur gætu skert starfshlutfall starfsmanna að hámarki niður í fjórðung. Starfsmenn gátu svo fengið atvinnuleysisbætur vegna þess sem upp á vantaði.
Bandaríkjamenn loka á Evrópu
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi. Hann sagði nauðsynlegt bregðast við þrengingum sem væru að verða í íslensku efnahagslífi sem hann vildi trúa að yrðu tímabundnar. Fimmtudaginn áður höfðu Bandaríkin lokað á allt flug frá Evrópu.
„Þar með væri í raun ferðaþjónustan í enn meira uppnámi heldur en að áætlanir gerður ráð fyrir. Þá ákváðum við fyrir hádegi á fimmtudaginn að kára þetta frumvarp og kom því inni í þingið sem fyrst þannig að fyrirtæki sem væru að ráðast í endurskipulagningu og eru að því þessa klukkutíma gætu brugðist við,“ sagði Ásmundur Einar 17. mars á Alþingi.
Lögin áttu að gilda til 1. júní. Síðan hafa þau verið framlengd nokkrum sinnum og um sumarið var 25% hlutfallinu breytt í 50%, að starfsmenn mættu ekki vera í minna hlutfalli en 50% til að eiga rétt á hlutabótum. Þá var líka skerpt á ákvæðum um rétt fyrirtækja til að nýta sér þessa leið. Það kom í ljós að fyrirtæki sem glímdu ekki við samdrátt höfðu nýtt sér úrræðið. Nokkur endurgreiddu bæturnar sem starfsmenn þeirra höfðu fengið. Í ljós kom að t.d. stoðtækjafyrirtækið Össur, Hagar og Skeljungur höfðu nýtt hlutabótaleiðina og sum þeirra greitt eigendum sínum arð á sama tíma. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði að lögunum yrði breytt. Markmiðið hefði verið að tryggja afkomu fólks og ráðningarsamband.
„Að sjálfsögðu var ekki ætlunin sú að stöndug fyrirtæki væru í raun og veru að nýta sér þetta neyðarúrræði til að greiða niður laun sinna starfsmanna.“
Nærri 28 milljarðar
Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar nýttu yfir 36.500 launamenn sér bótaleiðina og rúmlega 6.700 atvinnurekendur. Heildarbótagreiðslur vegna úrræðisins námu tæpum 28 milljörðum króna. Langflestir voru á hlutabótum fyrstu mánuðina eftir að lög um þær tóku gildi. Strax í mars rauk fjöldinn upp og náði hámarki í apríl. Þá voru rösklega 34 þúsund manns á hlutabótum og þann mánuð námu bótagreiðslur nærri 8 milljörðum eða 30% af heildarútgjöldunum.
Hlutabótaleiðin hefur runnið sitt skeið. Lagaákvæði um hana féll úr gildi 31. maí síðastliðinn. Í maí voru tæplega 3.500 manns í minnkuðu starfshlutfalli sem svarar til 0,9% atvinnuleysis. En hvað verður um þetta fólk, fær það aftur sín fyrri störf að fullu?
„Við búumst við því að langflestir þeirra sem hafa verið hlutabótum fari í fullt starf í kjölfar að þetta úrræði hefur verið fellt niður. Ríkið greiðir styrk til atvinnurekenda sem ráða fólk í fullt starf eða sama hlutfall og áður var.“ segir Birna Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri gagnagreininga hjá Vinnumálastofnun.