Leiksýning Þjóðleikhússins, Vertu úlfur, hlaut öll sjö verðlaun sem sýningin var tilnefnd til á Grímuverðlaunahátíðinni í kvöld.

Íslensku sviðslistaverðlaunin voru afhent í Tjarnarbíói í kvöld. Leiksýningin Vertu úlfur, eftir Unni Ösp Stefánsdóttur og Héðinn Unnsteinsson, hlaut þar flest verðlaun. Sýningin var tilnefnd til sjö verðlauna og hlaut þau öll, þar á meðal sem sýning og leikrit ársins, fyrir leikstjórn og leikara í aðalhlutverki. Sýningin er einleikur með Birni Thors í aðalhlutverki og byggist á samnefndri bók Héðins Unnsteinssonar. Verkið segir frá reynslu hans af geðhvörfum.

Bilið milli Vertu úlfs og þeirra sýninga sem reyndust næst hlutskarpastar er talsvert. Nútímaóperan Ekkert er sorglegra en manneskjan, eftir Friðrik Margrétar Guðmundsson og Adolf Smára Unnarsson, fékk tvenn verðlaun, fyrir tónlist ársins og María Sól Ingólfsdóttir fékk verðlaun sem söngvari ársins fyrir hlutverk sitt í sýningunni. Barnasýningin Kafbátur fékk einnig tvenn, sem barnasýning ársins og fékk Kjartan Darri Kristjánsson verðlaun fyrir leik í aukahlutverki í sýningunni. Danssýningin Ævi fékk einnig tvenn verðlaun, Inga Maren Rúnarsdóttir sem dansari og danshöfundur ársins.

Edda Björg Eyjólfsdóttir fékk verðlaun sem leikkona ársins í aðalhlutverki, fyrir hlutverk sitt í sýningunni Haukur og Lilja – Opnun, og Birna Pétursdóttir fékk verðlaun sem leikkona ársins í aukahlutverki, fyrir hlutverk sitt í sýningunni Benedikt búálfur.

Heiðursverðlaun hlutu Hallveig Thorlacius og Þórhallur Sigurðsson.

Hér fyrir neðan má sjá öll tilnefnd verk og verðlaunahafa.