„Það urðu greinilegar breytingar klukkan fjögur í nótt,“ segir Kristín Jónsdóttir, er hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, um breytta virkni í Fagradalsfjalli síðasta sólarhringinn. Hraun gýs ekki lengur upp úr gígnum í Geldingadölum en hraunstraumurinn er jafn.

Púlsar sem hafa einkennt virknina frá 2.maí fara að verða tíðari en minni, segir Kristín. „Það sem hefur gerst í morgun er að þeir eru orðnir svo veikir og tíðir að þetta rennur saman í stanslausan óróa eins og við sjáum þetta hjá okkur. Á sama tíma sjáum vi' hraunið renna jafnt og þétt úr gígunum.“

Svipaðar breytingar hafi sést áður en staðið skemur yfir, í klukkutíma eða tvo. Nú standi þær lengur. Kristín telur að líklega skýrist þetta af grunnstæðum breytingum á gígnum og kannski hundrað metrum undir honum.  

Nýjustu mælingar bendi ekki til þess að dregið hafi úr hraunrennsli og kvikuinnspýtingu. „Þær benda til þess að þetta sé mjög stöðugt flæði og áfram sama mynd af þessu ferli. Við erum að fá kviku af miklu dýpi og hún ferðast kannski á tveimur til þremur vikum þessa leið frá 20 km dýpi og koma fram í Geldingadölum. Allar mælingar benda til þess að þetta sé mjög svipað flæði.“

Kristín segir erfitt að segja til um hversu lengi enn á eftir að gjósa.