Tilkynnt hefur verið um níu hópnauðganir á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis það sem af er ári. Í maí, þegar Me too-bylgjan stóð sem hæst bárust 24 mál til neyðarmóttökunnar, mál sem flest voru innan við sólarhringsgömul.
Steinunn Gyða Guðjónsdóttir, talsmaður Stígamóta, og Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, voru gestir Einars Þorsteinssonar í Kastljósi í kvöld. Steinunn Gyða segist hafa haldið að umræðan hefði fælingarmátt og hefði tilkynningum því átt að fækka en svo hafi greinilega ekki verið. Vakti þetta þá sérstaka athygli í ljósi takmarkana á samkomum og þeirrar háværu Me too-umræðu sem skapaðist á þeim tíma. Alls óskuðu um 173 aðilar eftir viðtali hjá Stígamótum í maí en í venjulegum mánuði eru það um fimmtíu manns.
Ævar Pálmi segir marga hafa leitað til lögreglunnar en helsti skellurinn af seinni bylgjunni sem herjaði yfir í maí sé þó ekki enn kominn til lögreglu en von sé á honum. Ævar segir ákveðna forgangsröðun teyma vera til staðar þar sem ofbeldismál gegn börnum og nauðgunarmál eru í forgangi.