Stefnt er að því að á næsta ári verði í fyrsta sinn hægt að stunda staðbundið háskólanám á Austurlandi. Háskólinn í Reykjavík ætlar strax í haust að bjóða undirbúningsnám fyrir háskólastig í fjórðungnum.

Lengi hefur verið unnið að því að koma á laggirnar eins konar háskólaútibúi á Austurlandi og því voru það mikil tímamót þegar málið komst í höfn og fulltrúar Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri, Austurbrúar og atvinnulífs á Austurlandi undirrituðu samstarfssamning á Egilsstöðum. Kennsla fer fram í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði og er áherslan á tæknigreinar og kennslu á staðnum frekar en fjarnám.

„Fjarnám er ein leið fyrir fólk til að sækja sér menntun og þekkingu, þar með talið á háskólastigi, hvar sem það býr. Framboð á fjarnámi hefur aukist mjög á síðustu árum og það er mjög jákvætt. En Háskólinn í Reykjavík hefur alltaf haft þá sérstöðu að vera með áherslu á staðnám, vera með áherslu á hópaverkefni, vera með áherslu á mjög beinar tengingar við leiðbeinendur og kennara, við atvinnulífið og þannig byggja upp sína þekkingu og þekkingu samfélagsins án þess að þurfa að yfirgefa svæðið. Þetta er hlutur sem við höfum gert annars staðar á landinu og hefur tekist ljómandi vel til og við hlökkum til að sjá þetta braggast, vaxa og dafna hér á Austurlandi,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Atvinnulífið á Austurlandi hefur styrkt uppbygginguna og veitir styrki til þeirra nemanda sem standa sig best. „Með því að fá nám í tæknifræði á háskólastigi hingað austur þá er í raun verið að svara kalli atvinnulífsins hvað varðar þessi störf sem okkur vantar helst háskólamenntað fólk í. Það er í þessum tæknifræðigreinum. Þannig að þetta er mjög mikilvægt fyrir okkur sem erum að reka hér stór fyrirtæki fyrir austan, að fá þessa menntun á svæðið,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, en hún stýrir samskipta- og samfélagsmálum Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði.