„Þetta var gjörningur sem gekk upp og vonandi hefur þetta áhrif á hreyfinguna,“ segir forsprakki handboltaliðs Kríu, Daði Laxdal Gautason, sem tryggði sér í gærkvöldi sæti í úrvalsdeild karla eftir eins árs veru í fyrstu deild. Hann segir að lið æfi almennt allt of mikið í dag. Óvíst er hvort Kría spili í úrvalsdeildinni í haust.
Liðið varð til fyrir tveimur árum í afmæli Daða. Enginn strákanna var að æfa handbolta þá en ákváðu allir að byrja aftur og sjá hvað þeir gætu gert. Liðið hafnaði í sjötta sæti í fyrstu deildinni í vetur, mætti Víkingi sem hafnaði í öðru sæti, í umspili um sæti í úrvalsdeild og hafði betur 2-0.
„Þetta er bara eiginlega súrrealískt. Maður var eiginlega búinn að sætta sig við það að við værum ekki á leiðinni upp, það var bara búið að ganga það illa. En síðan lendum við í úrslitakeppnisgír, við fundum þetta allir í loftinu og vissum alltaf að við værum að fara að vinna,“ segir Daði.
Þrátt fyrir að liðið sé nýtt býr mikil reynsla í hópnum, það ásamt nýrri hugmyndafræði segir Daði hafa skilað þessum árangri.
„Við erum með ógeðslega góða leikmenn, marga leikmenn sem hafa verið í unglingalandsliði og erum með mikla reynslu. Síðan lögðum við upp með nýtt „concept“ sem hefur ekki náð miklum árangri áður og það er að æfa minna en hin liðin. Það hafa verið miklir fordómar gagnvart því að æfa minna og hafa meira gaman en við viljum meina að árangurinn hafi legið í því. Ég held að lið séu almennt að æfa allt of mikið.“
En ætlar hópurinn að spila í úrvalsdeildinni í haust?
„Ég verð eiginlega bara að vera hreinskilinn og segja ég veit það ekki. Við eigum eftir að taka umræðuna.“