Bolli Þórsson, innkirtla- og efnaskiptalæknir, segir að fjölgun þeirra Íslendinga sem eru með áunna sykursýki hér á landi nú sé svipuð því sem gerðist í Bandaríkjunum fyrir meira en tveimur áratugum. Fjöldi fólks með sykursýki tvö hér á landi hefur tvöfaldast á rúmum áratug og það þrátt fyrir batnandi mataræði landans.  

Tvöfalt fleiri með sykursýki 2 en fyrir áratug

Bolli er innkirtla- og efnaskiptalæknir hjá Hjartavernd, í Læknasetrinu í Mjódd og á göngudeild innkirtla og efnaskipta á Landspítalanum. Hann gerði, ásamt fleirum, rannsókn á fjölda þeirra sem eru með áunna sykursýki, sykursýki 2, hér á landi. 

Sagt var frá niðurstöðum rannsóknarinnar í nýjasta hefti Læknablaðsins. 

Niðurstöðurnar eru sláandi því á rúmum 13 árum, frá 2005 til 2013, tvöfaldaðist fjöldi þeirra sem eru með sykursýki 2.  Árið 2005 voru 4.200 með sjúkdóminn en 2018 voru 10.600 með hann. Ef svo heldur fram sem horfir megi búast við að árið 2040 verði um 24 þúsund manns með sykursýki 2 hér á landi.

Rannsóknin var gerð þannig að fengnar voru upplýsingar um lyf við sykursýki úr lyfjagagnagrunni landlæknis og einfaldlega talið hve margir voru á lyfjunum. Síðan var bætt við þeim sjúklingum sem höfðu nýlega greinst með sjúkdóminn.  

Íslendingar þyngjast

Bolli segir að ekki sé vitað hvers vegna þetta sé að gerast núna, ástæðan blasi ekki við. Áhættuþættir sykursýki séu vissulega þekktir. Sá stærsti sé offita, því fituvefur truflar sykurefnaskipti. Þess vegna aukast líkur á sykursýki ef fólk þyngist. Komið hefur í ljós í rannsókn sem Hjartavernd hefur gert að fólk hér á landi sé að þyngjast jafnt og þétt. Sú rannsókn sé ekki ný heldur var hún gerð árið 2011. Þá kom greinilega í ljós að Íslendingar eru að þyngjast.

Ekki bundið við neinn einn ákveðinn hóp

Áunnin sykursýki, eða sykursýki 2, eykst hjá öllum í samfélaginu, segir Bolli. Örlítill munur er á kynjunum því fleiri karlar eru með sykursýki en konur hér á Íslandi  „En það er hins vegar að sjá úr þessum gögnum að þetta dreifist yfir allan aldur fullorðinna og eykst líka hjá báðum kynjum. Þetta er fólk á öllum aldri og af báðum kynjum. Er það ekki dálítið óvenjulegt? Jú en þetta virðist fylgja öllu samfélaginu. Það er eitthvað í samfélaginu sem er að breytast. Þetta er eitthvað sem hefur áhrif á alla Íslendinga sem gerir það að verkum að sykursýkin er að aukast því þetta er ekki bundið við neinn hóp.“

Einnig hafi komið í ljós að nokkuð mikið er um það að fólk sé með væga sykursýki án þess að vita af því, sem sagt með vangreinda sykursýki. Það hafi komið hafi fram í rannsóknum Hjartaverndar. Það undirmat sé í kringum 29%.  

Erum á sömu leið og Bandaríkin

Rannsakendur báru fjölgun sykursjúkra hér á landi saman við sams konar rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum og í ljós komu svipaðar niðurstöður nema að í Bandaríkjunum varð fjölgun fólks með sykursýki 2 tveimur áratugum fyrr. Það sem er að gerast hér á landi núna er svipað því sem átti sér stað í Bandaríkjunum fyrir tuttugu árum, segir Bolli.

Mögulega hafi Bandaríkjamenn verið á undan. „Ef við horfum á kúrfuna frá Bandaríkjunum virðist sem þessi fjölgun standi nokkurn veginn í stað núna. Sykursjúkum er hætt að fjölga svona mikið þar og eiginlega vitum við heldur ekki af hverju. „En spurningin er ætlum við bara að elta Bandaríkjamenn?“ „Þá myndi það fara þannig að fjöldi sykursjúkra væri tvöfalt meiri en er hjá okkur í dag ef við ætlum að ná þeim fjölda sem er í Bandaríkjunum.“  Ef fólki með sykursýki 2 haldi áfram að fjölga á svipuðum hraða og á tímabilinu frá 2005 til 2018 megi búast við að tæplega 24 þúsund Íslendingar verði með sykursýki 2 árið 2040. 

Fleiri með sykursýki þrátt fyrir bætt mataræði

Fjölgun þeirra sem eru með áunna sykursýki tengist ekki beint mataræði. Kannanir hafa sýnt að mataræði landans fer batnandi. Fólk borðar meira grænmeti og gosdrykkjaneysla sé minni. „En það breytir ekki því að fólk hefur samt verið að þyngjast. Og það virðist vera sá þáttur sem er hvað sterkastur í þessu. En af hverju fólk þyngist þrátt fyrir að mataræði batnar, það er nú stóra spurningin.“

Fólk borðar bara of mikið 

Bolli segir að það sé hans persónulega skoðun að svarið liggi í framboði á tilbúnum mat sem hafi aukist mikið. Mikill iðnaður sé í kringum matvæli. „Og matur er ótrúlega góður. Til dæmis tilbúinn matur er satt að segja mjög bragðgóður og mjög auðvelt að ná sér í góðan mat og líka mat sem kitlar bragðlaukana [….] og matvælaframleiðendur kunna að fá fólk til að borða mikið af sínum mat. Og það held ég að auki það að fólk borðar bara of mikið.“

Mjög dýr sjúkdómur 

Kostnaður samfélagsins af sykursýki 2 er gífurlegur því lyf við sykursýki eru dýr en einnig leiðir sjúkdómurinn til margra annarra sjúkdóma. Hann leggst til dæmis illa á augun og sykursjúkir þurfa að fá mjög dýr lyf til að varna því að breytingar í augnbotnum versni. Sykursýki fer illa með nýrun og ef nýrun fara að gefa sig og fólk þarf að fara í nýrnaskilun þá verður kostnaðurinn gífurlega mikill. Og stærsti kostnaðurinn er að sykursýki ýtir undir hjarta- og æðasjúkdóma, segir Bolli. Þannig að það er hætt við að þeim fjölgi sem fá kransæðastíflu og eitthvað slíkt. Þegar allt er reiknað saman þá er þetta afskaplega kostnaðarsamt.  

„Það þarf náttúrlega að gera einhverja hagfræðilega úttekt á þessu. Við höfum ekki haft neina möguleika á því en ef maður ber saman til dæmis við Bandaríkin þá er fjöldi sykursjúkra nokkuð stöðugur þar núna en samt er verið að spá því að kostnaðurinn muni aukast um  53% til 2030.“  Gögn frá Bandaríkjunum sýni að þrátt fyrir að sykursjúkum sé hætt að fjölga sé gert ráð fyrir auknum kostnaði vegna sjúkdómanna sem fylgja sykursýkinni. „Þannig að í Bandaríkjunum reikna menn með að á næstu tíu árum aukist mjög hratt kostnaðurinn.“