Deildarstjóri öryggis- og réttargeðdeildarinnar á Landspítala er í ótímabundnu leyfi frá störfum að beiðni stjórnenda spítalans í kjölfar ábendinga núverandi og fyrrverandi starfsmanna um aðbúnað og starfsaðstæður á deildinni. Málið er til skoðunar hjá Embætti landlæknis.
Fréttastofa RÚV fjallaði um málið fyrr í þessum mánuði og þar var greint frá því að Embætti landlæknis hefði til skoðunar greinargerð Geðhjálpar með ábendingum fyrrverandi og núverandi starfsmanna um slæman aðbúnað á öryggis- og réttargeðdeild; ofbeldi, lyfjaþvinganir, ógnarstjórnun og mikinn samskiptavanda.
Í greinargerðinni segir að mörg atvikanna geti varðað við lög, meðal annars um réttindi sjúklinga og að skráningu á þeim tilvikum þar sem sprauta þurfi fólk nauðugt niður sé ábótavant, en það er skylt samkvæmt lögum.
Greinargerðin var send embættinu í nóvember í fyrra og í síðustu viku funduðu landlæknir, stjórnendur frá Landspítala og fulltrúar starfsmanna öryggis- og réttargeðdeildar vegna málsins, sem er enn til skoðunar hjá landlækni samkvæmt upplýsingum frá embættinu.
Nanna Briem, forstöðumaður geðþjónustu Landspítala, staðfesti í samtali við fréttastofu að deildarstjóranum hefði verið boðið að fara í leyfi á meðan skoðun Embættis landlæknis stæði yfir og að hann hefði þegið það. Hún sagðist að öðru leyti ekki geta tjáð sig um málið.