Leitin að þeim Stefaníu, Eivöru, Guðrúnu og Sæmundi bar árangur í Skúmey en helsinginn Guðmundur er utan þjónustusvæðis. Dýravistfræðingur bíður þess að Guðmundur komist í símasamband og sendi ferðasögu sína af flakkinu um landið í vor og sumar. 

Það er vart þverfótað fyrir gæsum í Skúmey í Jökulsárlóni enda er eyjan friðuð og enginn fær að drepa þar niður fæti nema með sérstöku leyfi Vatnajökulsþjóðgarðs. Í þessu helsingjahafi leitar Arnór að fjórum einstaklingum. 

„Ég veit að það eru fjórir hérna í eynni með GPS-senda, einn karlfugl og þrjár kerlingar. Þannig að ég er að vonast til að sjá einhverjar þeirra,“ segir Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur hjá Verkís. 

Hvenær komu þeir til Íslands?

„Þeir komu í apríl, um miðjan apríl. Þá tíndust þeir inn. Svo eru þeir búnir að vera hérna á leiðinni. Fjórir af þessum fimm verpa hérna. Sá fimmti var merktur í Vestur-Skaftafellssýslu. Hann er þar einhvers staðar, kominn upp í fjöllin. Þannig að hann er kominn út úr GMS-sambandi,“ segir Arnór.

Utan þjónustusvæðis?

„Akkúrat, utan þjónustusvæðis. En hann mun safna punktum í sumar og þegar hann kemst í símasamband vonandi seinna í sumar þá sendir hann okkur söguna frá því í sumar,“ segir Arnór.

Arnóri tókst að koma auga á allar fjórar gæsirnar í Skúmey og er núna að vinna úr gögnunum. 

„Þrjár af þeim eru kvenfuglar sem voru á eggjum. Þær heita Guðrún, Stefanía og Eivor. Svo var Sæmundur sem er stoltur faðir, eða verðandi faðir vonandi. Hann var þarna líka með kellu sinni,“ segir Arnór.

Kellan hans Sæmundar reyndist vera í góðum holdum sem er ekki slæmt því hún þarf að liggja í þrjár til fjórar vikur á eggjum. Hún virðist reyndar glíma við hárlos því hún er snubbótt á höfði, hvað sem veldur því. GPS-sendirinn er um háls Sæmundar. Sendirinn sést ekki jafnvel á Stefaníu því hann hefur grafist ofan í fiður. Þetta gerir það að verkum að sólarrafhlaðan á sendinum tæmist gjarnan og því skilar Stefanía inn færri staðsetningarpunktum til Arnórs. 

Helsingjarnir fimm flugu til Skotlands eftir að þeir fengu GPS-sendi. 

„Sæmundur fór eiginlega á norðausturhorn Skotlands. Þar er lítil eyja sem heitir Eilean Hoan, óbyggð eyja, þar náttar hann sig,“ segir Arnór.

Hvenær fékk hann svo heimþrá að koma til Íslands?

„Það var núna um miðjan apríl sem hann skellir sér heim og var tiltölulega snöggur. Hann var eitthvað 18 klukkutíma á leiðinni að fljúga. Hann kemur á land á Austurlandi, þetta var þarna við Fáskrúðsfjörð fyrst. Svo fikrar hann sig eftir ströndinni þangað til hann er kominn í Skúmey. Kominn heim,“ segir Arnór.

En hann var samt ekki fljótastur?

„Nei, Guðmundur var fljótastur. Þessi rauði hérna. Hann var ekki nema 12 tíma. Hann fékk ansi góðan meðbyr. Þegar mest var þá var vindurinn í bakið 70 km á klukkustund. Hann komst þá að 100 km á klukkustund í bakið,“ segir Arnór.

Guðmundur er sá helsingi sem lét sig hverfa upp til fjalla. Hinir fjórir njóta þess að vappa um Skúmey. 

Hvers hefurðu orðið vísari með þessum GSP-sendarannsóknum?

„Við sáum í fyrsta lagi í fyrrahaust eftir að við settum sendana á þau hvernig þau nýta landið hérna í sýslunni, hvað þau hreyfa sig mikið og í hvernig beitiland þau fara, hvort þau eru mikið í villtum gróðri eða túnum,“ segir Arnór.

Á meðan kvenfuglinn liggur fastandi á eggjum í tæpan mánuð skreppur karlinn af og til af eyjunni í leit að næringu. 

„Hérna er hreiðrið hans Sæmundar. Hérna eyðir hann mestöllum tímanum að standa vörð um hreiðrið en svo skreppur hann aðeins hérna upp í land að ná sér í bita,“ segir Arnór.

Sumir fuglar, einkum ungir og ólofaðir, leita í tún bæna. En það hafa ekki allir helsingjar sama matarsmekk

„Ein þeirra, Stefanía, virtist vera nær eingöngu í villtum gróðri. Svo voru aðrar sem fóru svolítið í tún. Þetta er eitthvað sem við eigum eftir að greina út úr þessum gögnum,“ segir Arnór.