Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segist hafa nokkur staðfest dæmi um að ferðaþjónustufyrirtækjum gangi „vægast sagt illa“ að ráða til sín fólk af atvinnuleysisbótum. Annað hvort sé ekki svarað í símann eða fólk segist ekki hafa áhuga. Stundum gefist atvinnurekendum ekki færi á að bera erindið upp. „Það er bara ótrúlegt að þetta geti viðgengist.“
Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld þar sem Bjarnheiður og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, ræddu stöðu ferðaþjónustunnar.
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér.
Bjarnheiður benti á að ferðaþjónustan á Íslandi væri að greiða einhver hæstu laun í Evrópu og það geti því ekki verið svarið við þessum viðbrögðum. Auk þess væru launin nú svipuð og þau hefðu verið fyrir faraldurinn.
Þórdís Kolbrún sagðist ekki hafa einhverjar greiningar á þessu en kvaðst hafa heyrt svipaða hluti. „Að fyrirtæki séu að reyna að ráða til baka starfsfólk og það gangi ekki nógu vel er mjög alvarlegur hlutur. Þetta eru ekki allt hálaunastörf en það á að vera eftirsóknarvert að vinna.“
Fáar atvinnugreinar hafa farið jafn illa út úr kórónuveirufaraldrinum og ferðaþjónustan. Einhverjir hafa þó áhyggjur af því að nú sé verið að fara of geyst.
Bjartsýnustu spár gera ráð fyrir 800 þúsund ferðamönnum til landsins á þessu ári og um mánaðamótin tekur gildi ný reglugerð þar sem sóttkvíarhótelin heyra nánast sögunni til.
„Við höfum tekið þá ákvörðun að taka á móti fullbólusettu fólki og eftir ekkert alltof margar vikur verðum við búin að bólusetja þá sem við ætlum að bólusetja. Við erum samt ekkert að fara í það að fólk geti valsað hér um,“ segir Þórdís. Markmiðið með bólusetningunni sé að þótt það leki inn einhver smit hafi það ekki alvarlegar afleiðingar og verið sé að gera ráðstafanir til að fólk geti fengið þennan aukaskammt síðar ef á þarf að halda vegna nýrra afbrigða.
Hægt er að horfa á umræðuna í heild sinni í spilara hér að ofan innan skamms.