Tilraunin með varnargarðana fyrir ofan Nátthaga virkaði fullkomlega, sagði Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í Kastljósi í kvöld. Hann sagði að þótt hraun hefði farið yfir garðana þá stæðu þeir enn. Ari Guðmundsson byggingafræðingur sagði mikilvægt að kanna hvernig eldgos á Reykjanesskaga gæti þróast. Nú eru á teikniborðinu varnargarðar og annar viðbúnaður til að verja innviði, virkjun og byggð. Ef ráðast þyrfti í það allt færi ein milljón rúmmetra af jarðvegi í framkvæmdirnar.

Almannavarnir fengu verkfræðinga og jarðvísindamenn til að meta mögulega þróun eldgosa og hraunrennslis og hvað þyrfti að gera til að verjast því. Þar á meðal eru varnargarðar um Grindavík og Svartsengi, varnir utan um heitavatns- og kaldavatnslagnir og rafmagnslínur.

Tilraunin tókst mjög vel

Ármann sagði í Kastljósi í kvöld að tilraunin með varnargarða fyrir ofan Nátthaga hefði gengið hundrað prósent upp. „Tilgangurinn var að tefja hraunið, við erum ekki að stoppa það,“ sagði hann. „Þessi tilraun, það verður að segja það að hún tókst mjög vel.“ Þannig væru garðarnir á sínum stað og hefðu ekki rofnað fyrir hraunrennslinu. „Garðarnir eru þarna. Þeir fóru ekki. Það var bara of mikið í lóninu. Það fór yfir.“

Ari sagði mögulegt að setja upp nýja garða framarlega í Nátthaga, nær sjónum, og tefja fyrir því að hraunið kæmist að Suðurstrandarveginum. Þá mætti einnig setja upp leiðigarða til að beina hrauninu þangað sem hentugast væri að það ryfi veginn. „Við erum að fara yfir þetta núna, þessa dagana, hvað er heppilegast að gera í því.“

Gæti staðið í nokkur ár, áratugi eða aldir

Eldgosið við Fagradalsfjall er farið að líkjast dyngjugosi. „Minnstu dyngjugosin sem við þekkjum hafa staðið í svona þrjú ár, stærstu kannski upp undir 50 eða 100 ár. Vissulega gætum við verið að glíma við þetta í einhver ár,“ sagði Ármann en kvað alls óljóst hversu lengi gosið standi yfir. Hann sagði að ef eldgosið stæði yfir í þrjú ár yrði það álíka stórt og Surtsey. Þá myndi gosið fylla upp í Nátthaga, Merardali, Geldingadali og fara yfir á Fagradalsfjall.

Það stóð ekki á svari Ármanns hvort líkur væru á fleiri eldgosum á næstu árum. „Það er bara ekki spurning. Nú erum við komin í þessa hrinu. Sjálfsagt ef hún líkist eitthvað síðustu hrinu þá eru það næstu hundrað, 300 ár sem verða gos með reglulegu milllibili á Reykjanesinu.“ Það myndi klárlega gerast á æviskeiði þeirra sem nú eru uppi. „Við erum bara heppin meðan þetta gos er að dúlla sér. Þetta er pínkulítið, þetta er á besta stað og gefur okkur tækifæri til að hugsa og gera okkur klár.

Tilbúin að bregðast hratt við

Ari sagði að meðal leiða til að verja innviði, húsnæði og byggð væru þær að reisa varnargarða til að reyna að stöðva hraunrennslið, leiðigarða til að beina því í ákveðnar áttir og opna rásir til að stýra því hvert hraunið rennur. Hann sagði ráðlegt að hafa efni tilbúið í námum svo hægt væri að bregðast hratt við ef á þyrfti að halda. Hugmyndir eru uppi um að byggja yfir heita- og kaldavatnslagnir, fergja þær með jarðvegi þannig að hraunið geti runnið yfir þær og setja heitavatnslögn til Grindavíkur neðanjarðar að hluta. Einnig gætu verið myndaðir varnargarðar utan um hvert og eitt háspennumastur.

Hugmyndirnar sem nú eru uppi eru víðtækar, sagði Ari. „Þetta eru all margir kílómetrar. Ef við erum að tala um alla þessa garða sem eru komnir núna á teikniborðið erum við að tala um eina milljón rúmmetra ef þeir verða byggðir að fullu. Við erum kannski meira að horfa til þess að fara í þetta að hluta til þannig að við ákveðinn atburð þá þurfi ekki að byrja frá grunni.“

Ekkert grín ef þúsundir verða án rafmagns og hita

Ármann sagði fulla þörf fyrir tímanlegan undirbúning. „Auðvitað verðum við að vera tilbúin því þarna eru einhverjir hlutir sem við viljum ekki missa úr. Ef við fáum vetrargos inni í Eldvörpum, sem eru á þessum rafmagnssvæðum þar sem heitavatnslagnirnar og fleira eru þá er bara heitt vatn farið af Keflavík og Njarðvíkum og þeim hluta nessins og jafnvel líka Grindavík. Það er ekkert grín ef fleiri þúsund manns hafa allt í einu engan hita og ekkert rafmagn og ekki neitt. Menn verða að gera sig klára.“