Bráðainnlögnum á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans hefur fjölgað um 80 prósent á einu ári. Tilvísunum vegna sjálfsvígshugsana og sjálfsvígstilrauna ungmenna fjölgar hratt. Geðlæknir á BUGL segir byssueign, vímuefnaneyslu og niðurskurð í þjónustu stóra áhættuþætti.
Fram kemur í skýrslu Landlæknis frá 2018, um sjálfsvígshugsanir, sjálfsvígstilraunir og sjálfsskaða meðal íslenskra ungmenna, að árið 2016 höfðu nærri þúsund íslenskir framhaldsskólanemar gert tilraun til sjálfsvígs einhvern tímann á ævinni, 350 drengir og 613 stúlkur.
Tilvísunum fjölgar hratt
Nú, um fimm árum síðar, fjölgar tilvísunum vegna alvarlega veikra ungmenna á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans hratt. Sömuleiðis fjölgar þeim sem þangað koma eftir sjálfsvígstilraunir.
„Við höfum séð mikla aukningu núna í vetur miðað við hvernig þetta var í fyrra,” segir Bertrand Andre Marc Lauth, geðlæknir á BUGL. „Svo er á bilinu 60 til 70 prósenta aukning á tilvísunum í bráðaþjónustu okkar og aðallega vegna sjálfsvígshugsana, sjálfsvígstilrauna. Einkenni kvíða og þunglyndis. Og bráðainnlagnir út af þessu hafa aukist um 80 prósent núna í vetur miðað við hvernig þetta var í fyrra.”
Byssueign og vímuefni meðal áhættuþátta
Í viðtali við Læknablaðið viðraði Bertrand áhyggjur sínar af byssueign Íslendinga, sem er töluverð miðað við höfðatölu.
„Þetta er alltaf áhættuþáttur. Þetta er spurning um sjálfsvígshugsanir. Ég var mjög hissa að sjá að landið var í 10. sæti allra landa í sambandi við byssueign á hverja 100.000 íbúa.”
Kannabis og áfengi eru stórir áhættuþættir meðal unglinga og sömuleiðis segir Bertrand faraldurinn hafa haft áhrif. Vandinn sé þó flóknari en svo.
„Ég held að við séum öll sammála um það, sérfræðingarnir, að við séum núna að fá yfir okkur afleiðingar bankakreppunnar sem varð 2008.”
Forvarnir mikilvægastar
Niðurskurður í grunnstoðum skólaumhverfisins, sérkennslu og félagsþjónustu barna og unglinga hafi mun alvarlegri áhrif en margan gruni.
„Í sambandi við forvarnir og þora að skoða þetta vandamál sem er á öllum heimilum núna, skjánotkun og þau áhrif sem það hefur á börnin okkar. Í sambandi við líðan, svefn, þyngd og áhrif á vitsmunaþroska og hæfileika til náms.”
Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og hægt er að hringja allan sólarhringinn í hjálparsíma Rauða krossins, 1717 eða hafa samband við netspjallið 1717.is.