Öllum hnútum kunnug er fyrirferðarlítil en áhugaverð sýning, segir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir sjónlistarrýnir. Þar vinna þrír listamenn saman að því að rekja upp þræði reipisins og skoða það í sögulegu, menningarlegu og fagurfræðilegu samhengi.
Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:
Undir venjulegum kringumstæðum ætti Hönnunarmars að vera löngu liðinn en í ár er hátíðin haldin í maí og það í tólfta sinn. Hönnunarmars er ein af sex borgarhátíðum Reykjavíkurborgar og setur sinn árlega svip á borgarbraginn með forvitnilegu hlaðborði hugmynda, tilrauna og úrlausna sem ýmist eru borin fram í efnislegu eða óefnislegu formi. Hátíðinni hefur nú verið þjófstartað með fyrirferðarlítilli en áhugaverðri sýningu sem reyndar hefur bæði opnað og lokað nú þegar í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur en mun verða sett aftur upp í Norræna húsinu 19. maí þegar Hönnunarmars hefst formlega. Þetta er sýningin Öllum hnútum kunnug og viðfangsefnið er reipi. Brynhildur Pálsdóttir, hönnuður, Þuríður Rós Sigurþórsdóttir, myndlistarmaður og hönnuður, og Theresa Himmer, arkitekt og myndlistarmaður, standa að sýningunni sem í raun er einungis ein varða á lengri leið sem þær eru að þræða sig eftir.
Listamennirnir vinna hér saman að því að rekja upp þræði reipisins og skoða það í sögulegu, menningarlegu og fagurfræðilegu samhengi. Sjónum er beint að framleiðsluaðferðum, efnisleika, notagildi, hjátrú og handverki og skoðað hvernig reipið birtist í kaðlagerð annars vegar og hins vegar netagerð. Þannig verður samanburður kaðla og neta að þungamiðju verkefnisins sem bæði hugmyndafræðilegur og efnislegur grunnur þess hverfist um. Kaðalinn skoða þær í samhengi við viktorísk heimili 19. aldar með viðkomu í Aarhus Possementfabrik í Danmörku, þar sem síðasti núlifandi skrautkaðalgerðarmaðurinn starfar. Netið skoða þær svo í samhengi við fiskveiðar með viðkomu í Hampiðjunni í Reykjavík þar sem flennistórar nótir eru sniðnar, felldar og saumaðar saman í höndunum af reyndum fagmönnum. Listamennirnir hafa hér fundið áhugaverðan samnefnara milli afar mismunandi tegunda af reipum í hlutverkum sem gætu varla verið ólíkari: í stássstofu heimilisins annars vegar og á togara á úthafi hins vegar. Þessir tveir ólíku heimar skarast í meðförum listamannanna sem búa svo um hnútana að úr verða óvæntar samsetningar og snúið er upp á notagildið. En með því að stilla upp óræðum skúlptúrum úr málmi og plasti, sem virðast vera eins konar húsgögn eða heimilismunir, eru dregnar línur milli þessarra tveggja fyrirbæra. Unnið er með mjúk form úr hörðum efnum en bogadregin og kúpt form, s-laga form og keilur eru áberandi og kaðlar eða net eru strengd yfir eða á milli. Óvænt líkindi birtast milli loðnunótar og gluggatjalda þar sem hið fyrra flýtur á korklínu á úthafi og hið síðarnefnda hangir í glugga og er haldið á sínum stað af köðlum og skreytt með dúskum. Í vídeóverki má sjá enn eina tenginguna við kaðal sem eru mannshár og fléttur. Verkin eru svo römmuð inn af fisléttri og gegnsærri gardínu sem myndar eins konar svið utan um sýninguna, sem aftur vísar til hugmyndarinnar um heimilið sem sviðsetningu.
![Öllum hnútum kunnug er þverfaglegt verkefni á mörkum hönnunar, myndlistar og arkitektúrs þeirra Brynhildar Pálsdóttur, Þuríðar Rós Sigurþórsdóttur og Theresu Himmer. Þúsund ára gamalt handverk kaðalsins er útgangspunkturinn og það notað til að kanna mörk þessara þriggja faga og táknræna vídd reipisins í norrænni samtímamenningu. Sýningin er upptaktur að HönnunarMars í maí 2021 og opnar í Listasafni Reykjavíkur núna á laugardaginn, 1. maí. Öllum hnútum kunnug er þverfaglegt verkefni á mörkum hönnunar, myndlistar og arkitektúrs þeirra Brynhildar Pálsdóttur, Þuríðar Rós Sigurþórsdóttur og Theresu Himmer. Þúsund ára gamalt handverk kaðalsins er útgangspunkturinn og það notað til að kanna mörk þessara þriggja faga og táknræna vídd reipisins í norrænni samtímamenningu. Sýningin er upptaktur að HönnunarMars í maí 2021 og opnar í Listasafni Reykjavíkur núna á laugardaginn, 1. maí.](https://static.nyr.ruv.is/static/images/ruv-is-default-2022-lg.png)
Öllum hnútum kunnug – -
Þótt verkin á sýningunni séu sett fram undir merkjum hönnunar þá er hér ekki verið að hanna hluti með tiltekið notagildi eða til framleiðslu. Hlutirnir á sýningunni eru fremur eins og tilraunir, sýni eða prófanir á mögulegum útfærslum eða birtingarmyndum af þeim afrakstri sem á þessu stigi kominn fram í rannsóknarferlinu. Það að listamennirnir hafi valið að sýna verkin í samhengi listasafns ýtir enn fremur undir tilraunastarfsemina en sýningarsalurinn virkar sem eins konar mátunarklefi fyrir tiltekna uppröðun og innrömmun verkanna sem án efa á eftir að gjörbreytast í samhengi annarra sýningarstaða. Það er frískandi að sjá verk sem eru enn á þróunarstigi í samhengi listasafns en venjan er að listamenn setji fram fullunnin verk í stað ókláraðra hugmynda. Þetta er einmitt eitt af einkennum sýningarinnar, verkin eru opin í annan endann, hlutir eru óljósir og óræðir, þeir eru augljóslega á leiðinni eitthvert. Efniviðurinn er afar frjór en fyrirbæri eins og reipi og nótir opna leiðir inn í enn stærri hugmyndaheim um þróun mannkyns, eins og mannfræðingurinn Tim Ingold hefur gert að rannsóknarefni sínu. Í bók sinni „Lines – a brief history“ lýsir hann því hvernig heimurinn samanstendur af línum, hvort sem er í hlutlægri eða huglægri merkingu, og hvernig ólíkustu fyrirbæri eins og skrift, prjón, vefnaður, veiðinet, girðingar, borgarskipulag, ferðalög, tíminn og tengslanet eru öll byggð upp af línum. Jafnvel hugsun okkar er línuleg, þó ekki frá náttúrunnar hendi heldur hefur hún orðið það fyrir mannlegar gjörðir sem eiga sér rætur í vestrænni hugmyndafræði og erfitt er að vinda ofan af. En þræðingar, bindingar, hnútar, snúningar, lykkjur og möskvar – þetta er meðal elstu listformanna og úr þeim hafa flókin manngerð fyrirbæri eins og íverustaðir og sjóför orðið til og þannig má segja að þau hafi gegnt lykilhlutverki í þróun mannlegs samfélags.
Það verður spennandi að sjá hvernig Brynhildur, Þuríður og Theresa munu vinna áfram með þennan frjóa efnivið. Ég saknaði þess að sjá ekki meira unnið með kaðalinn á þessi stigi og vonast til að hann komi frekar við sögu á síðasti stigum verkefnisins en mun meiri áhersla var á netagerð en kaðlagerð í þessari atrennu. Búast má við að fleiri verk bætist við þar sem sýningin sem nú er sett fram í dagskrá Hönnunarmars er aðeins sú fyrsta í röð sýninga sem framundan eru og gaman verður að sjá þær stöllur feta sig áfram eftir nótum og köðlum í sköpunarferlinu sem nú virðist í miðju kafi.