Mun fleiri karlmenn taka þátt í kröftugri #metoo-bylgju sem nú er risin. Þeir sem beita ofbeldi gangast síður við gerðum sínum séu þeir stimplaðir sem skrímsli, segir kona sem hefur rannsakað viðhorf gerenda. Þá séu hugmyndir fólks um ofbeldi oft í litlu samræmi við það hvernig það birtist í raun og því geri menn sér stundum ekki grein fyrir því að þeir hafi beitt ofbeldi. Ofbeldismenn líti á sig sem góða menn.
Ný #metoo-bylgja er risin eftir að mál Sölva Tryggvasonar komst í hámæli. Margir hafa stigið fram og greint frá ofbeldi sem þeir hafa verið beittir. Þessi bylgja er ólík þeirri sem reis fyrir þremur árum að því leyti að hún hefur vakið meiri viðbrögð sumra karlmanna. Þeir hafa í meira mæli stigið fram og gengist við því að hafa beitt hafa aðra ofbeldi. Síðustu daga hefur fjölgað mjög fyrirspurnum um námskeið Stígamóta fyrir karla sem vilja taka þátt í baráttunni gegn kynferðisofbeldi.
Áfall að átta sig á hafa beitt ástvin ofbeldi
Katrín Ólafsdóttir vinnur að viðtalsrannsókn um menn sem beita ofbeldi í nánum samböndum.
Þeir sem gangast við ofbeldinu verða fyrir áfalli.
„Sem þeir verða fyrir í kjölfarið á því að átta sig á að hafa beitt ástvin ofbeldi. Og þeir lýsa því ítrekað að þeir verða fyrir svo miklu áfalli vegna þess að þeir litu allir á sig sem góða menn sem ætluðu ekki að meiða neinn,“ segir Katrín.
Reyna að finna hluti sem sanna eigin góðmennsku
„Svo vakna þeir upp við þann vonda draum einn daginn að þeir eru annað hvort sakaðir um ofbeldi sem þeir verða að horfast í augu við eða lögregla er með þá í haldi. Þá byrjar sjálfið gjarnan að reyna finna alls konar hluti sem þú hefur gert sem einstaklingur sem eru góðir, sem sýna fram á að þú sért góður einstaklingur. Það er mjög dæmigert,“ segir Katrín.
Hugmyndir um ofbeldi ekki í samræmi við raunveruleikann
„Í okkar samfélaginu höfum við mjög steríótýpískar hugmyndir um það hvernig heimilisofbeldi lítur út, hvernig nauðgun lítur út og þessi brot, sem gerir það að verkum bæði þolendur og gerendur eiga oft erfitt með að samræma sína reynslu við þessa stereíótýpísku hugmynd um það hvernig ofbeldisbrot á að vera. Þegar kemur að gerandanum þá snýst þetta svolítið mikið um þessa skrímslavæðingu af því að í okkar samfélaginu erum við búin að búa til stór skrímsli úr mönnum, sérstaklega karlmönnum í þessu tilviki, sem beita konur ofbeldi. Við sjáum þá gjarnan fyrir okkur menn að næturlagi sem ráðast á stúlkur í húsasundi eða draga þær inn á klósett á skemmtistað. Við sjáum fyrir okkur menn sem vakna á morgnana sem eru svo fullir af reiði að þeir bíða eftir að ráðast á einhvern. En þetta er auðvitað ekki þannig því þetta eru bara venjulegir menn. Og ef við köllum þá endalaust skrímsli, skrímsli þá gengst enginn nokkurn tímann við sínum brotum. Við vitum að það sem margir þolendur kjósa er einmitt að þeirra gerandi taki ábyrgð á sínum verkum. Þannig að það er í þágu allra sem hlut eiga að máli að ýta þessari skrímslavæðingu lengst út í hafsauga,“ segir Katrín.