Nú er komið í ljós hver kynnir stigin fyrir Íslands hönd í úrslitum Eurovision-söngvakeppninnar sem fara fram í Rotterdam 22. maí. Það verður enginn annar en Olaf Yohansson, betur þekktur sem Jaja ding dong-gaurinn, sem Hannes Óli Ágústsson lék svo eftirminnilega.
Þetta kom fram í þættinum Vikan með Gísla Marteini á RÚV í kvöld, en þar spjallaði Gísli Marteinn við Húsvíkinginn ástríðufulla sem var að vonum ánægður með nýja starfið.
Olaf Yohansson sló í gegn í Hollywood-myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga með Will Ferrell í aðalhlutverki, en myndin fjallaði um íslenska Eurovisionkeppendur frá Húsavík. Þar fór Hannes Óli á kostum í hlutverki ákafs aðdáanda lagsins Jaja Ding Dong, sem flutt var í myndinni.
Lagið Husavik – My home town, sem einnig var flutt í myndinni, var tilnefnt til Óskarsverðlauna. Myndband sem tekið var upp af flutningi Molly Sandén og stúlknakórs úr fimmta bekk Borgarhólsskóla í bænum sjálfum var sent út á Óskarsverðlaunahátíðinni.
Hannes fetar í fótspor margra þekktra Íslendinga sem hafa verið stigakynnar landsins í keppninni í gegnum tíðina, meðal annars þau Jóhannes Haukur Jóhannesson, Edda Sif Pálsdóttir, Björgvin Halldórsson söngvari, Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Unnsteinn Manúel, Brynja Þorgeirsdóttir og Eva María Jónsdóttir.
Daði og Gagnamagnið taka þátt í keppninni í ár með laginu 10 Years. Ísland keppir í seinni undankeppninni, fimmtudaginn 20. maí og í úrslitunum 22. maí ef það kemst áfram.